Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 494. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1140  —  494. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um samanburð á nýgengi krabbameins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er munur á nýgengi og tíðni krabbameins á Íslandi og í öðrum löndum OECD eða þeim löndum sem við berum okkur helst saman við? Ef svo er, í hverju er munurinn aðallega fólginn?

    Norrænu krabbameinsskrárnar teljast með bestu krabbameinsskrám veraldar og hófu þær starfsemi sína á árunum 1948–56, sú íslenskra var stofnuð 1954. Teljast þær í hæsta gæðaflokki í krabbameinsskrám samkvæmt þeim kröfum sem til slíkra stofnana eru gerðar. Ná þær allar til hverrar þjóðar í heild sinni. Norrænu skrárnar eiga mikið samstarf og hefur mikil vinna verið lögð í góðar upplýsingar og að þær séu sambærilegar og samanburður því réttur á milli landanna.
    Á Norðurlöndunum, öðrum en Íslandi, er lagaleg skylda um skráningu krabbameina og hefur verið svo um árabil. Telur ráðherra vonir standa til að úr þessu verði einnig bætt hér á landi.
    Eftirfarandi eru upplýsingar sem byggjast á samstarfsverkefni norrænu skránna. Nýgengi krabbameina í heild sinni, sem og nokkurra tíðustu meinanna á Íslandi, er hér borið saman við hin fjögur Norðurlöndin, en þau lönd verða að teljast helstu samanburðarlönd okkar Íslendinga.

Öll mein.
    Ísland er nálægt meðaltali Norðurlandanna hvað varðar nýgengi allra krabbameina, heldur í hærri kantinum þó, bæði fyrir konur og karla. Heildarmyndin skýrist að talsverðu leyti af þeim meinum sem hafa langhæst nýgengi, en þar er um að ræða brjóstakrabbamein (27% allra meina í konum á Norðurlöndunum), blöðruhálskirtilskrabbamein (24% allra meina í körlum), krabbamein í lungum (13% og 7% allra meina í körlum og konum) og krabbamein í ristli og endaþarmi (13% allra meina bæði í körlum og konum).

Brjóst.
    Nýgengið hefur vaxið hratt á Íslandi síðustu áratugi eins og í nágrannalöndunum. Engin aukning hefur þó verið hjá konum yngri en 40 ára. Á Íslandi er nýgengið rétt fyrir ofan miðbik norrænu dreifingarinnar, en Norðurlöndin eru meðal þeirra þjóða sem hafa hæst nýgengi í heiminum. Þó er það enn hærra í Bandaríkjunum og Hollandi.

Blöðruháls.
    Hér er mikill munur milli Norðurlandanna og er hæsta nýgengið á Íslandi. Þetta mein hefur nokkra sérstöðu því nýgengið er mjög háð þeim aðferðum sem notaðar eru til greiningar og skimunar. Talsverð aukning varð er farið var að beita skurðaðgerð er nefnist „Trans Uretral Resection“ (TURP) og er aðgerðin þá gerð gegnum þvagrás til að nema brott góðkynja æxli í blöðruhálsi. Enn frekari aukning fylgdi í kjölfar þess að farið var að mæla sértækt mótefni í blóði „Prostate Specific Antigen“ (PSA), en hækkaður styrkur þess getur bent til þess að krabbamein hafi myndast í blöðruhálsi.
    Aukin beiting þessara aðferða leiðir til þess að einkennalaus mein hafa greinst í auknum mæli, en það er ekki í öllum tilvikum jákvætt af því að mikill hluti krabbameina í blöðruhálsi reynist vera í hvíld (latent), þ.e. þau þróast mjög hægt og eru því ekki hættuleg. Ekki eru til próf sem greina á milli þessara meina og hinna sem eru lífshættuleg.
    Nýgengi í Danmörku er langlægst á Norðurlöndunum, sem er talið skýrast af því að þar er PSA-próf mun minna notað en hjá bræðraþjóðunum.

Lungu.
    Nýgengi hjá íslenskum körlum er fyrir neðan meðallag miðað við hin Norðurlöndin, en íslensku konurnar hafa fram á síðustu ár haft hærra nýgengi en norrænar kynsystur þeirra og dánartíðni íslenskra kvenna af völdum lungnakrabbameins hefur um árabil verið sú hæsta í heiminum. Dönsku konurnar haf þó á allra síðustu árum komist upp fyrir þær íslensku.
    Fullvíst er talið að skýringanna megi leita í reykingavenjum fyrir áratugum síðan, en það tekur a.m.k. 10–15 ár fyrir meinið að myndast. Íslensku konurnar byrjuðu fyrr en aðrar norrænar konur að reykja í miklum mæli. Fyrsti samanburður milli Norðurlandanna hvað varðar reykingavenjur er frá 1965 og þá reyktu íslenskar konur mest af þeim norrænu. Árið 1975 voru dönsku konurnar að komast upp fyrir þær íslensku í reykingum og hafa frá þeim tíma haldið þeirri vafasömu forystu.

Ristill og endaþarmur.
    Ísland liggur fyrir neðan meðallag hvað varðar nýgengi þessarra meina þegar þau eru skoðuð sem ein heild. Nýgengið er langhæst hjá Dönum og Norðmönnum og hefur það nánast tvöfaldast í Noregi frá því að skráning hófst, en hækkunin er mun minni hjá hinum þjóðunum.

Magi.
    Ísland hefur hæst nýgengi Norðurlandanna, en það hefur þó lækkað mjög mikið frá því að skráning hófst og er nú aðeins þriðjungur af því sem það var hjá íslenskum körlum og hefur helmingast hjá konum. Þær hafa allan tímann haft talsvert lægra nýgengi en karlarnir, nema hjá einstaklingum sem greinast yngri en 40 ára, þar er nýgengið álíka hátt. Lækkun nýgengisins er talið tengjast breytingum á umhverfisþáttum. Breytingar í mataræði, minna um reyktan og saltaðan mat og meira af ávöxtum og grænmeti, sem og lækkuð tíðni sýkinga af völdum sýkilsins helicobacter pylori eru taldir mikilvægustu þættirnir. Sýkingin er talin skýra 58% allra krabbameina í maga. Magakrabbamein eru komin niður í 4% allra meina í körlum á Norðurlöndum og 2,7% allra meina í konum.

Sortumein í húð.
    Nýgengi sortumeina í húð hefur meira en þrefaldast frá upphafi skráningar á öllum Norðurlöndunum. Íslenskir karlar hafa langlægsta nýgengið af norrænum körlum. Íslensku konurnar deildu lengi neðsta sætinu með þeim finnsku en eru nú komnar talsvert upp fyrir þær. Langsterkasti áhættuþátturinn er sólargeislun eða sambærileg geislun og er hún talin skýra 95% allra tilfella. Sérstaklega er talið varasamt að fá mikinn geislaskammt í stuttan tíma. Sortumein í húð eru nú orðin 3,6% allra meina í körlum og 4% í konum á Norðurlöndunum.

Legháls.
    Nýgengið hefur helmingast á Norðurlöndunum frá því um 1964, en lækkunin er minnst í Noregi. Þar hófst skipuleg leghálskrabbameinsleit ekki fyrr en 1995. Skipuleg leit hófst hins vegar árið 1964 á Íslandi og er talið að henni megi þakka að svo mikil lækkun varð á nýgengi í stað þeirrar hækkunar sem búast mátti við í kjölfar aukins frjálsræðis í kynlífsháttum eftir að notkun getnaðarvarnapillunnar varð almenn eftir 1964, en sýking af völdum veirunnar „human papilloma virus“ (HPV) er talin orsaka stærstan hluta leghálskrabbameina. Þau eru nú aðeins 2,9% allra meina á Norðurlöndunum.