Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1213, 128. löggjafarþing 351. mál: fyrirtækjaskrá (heildarlög).
Lög nr. 17 20. mars 2003.

Lög um fyrirtækjaskrá.


I. KAFLI
Markmið og stjórnsýsla.

1. gr.

     Halda skal skrá, fyrirtækjaskrá, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga.
     Fjármálaráðherra fer með mál sem varða fyrirtækjaskrá.

II. KAFLI
Skráning og útgáfa á kennitölu.

2. gr.

     Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
  1. Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
  2. Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
  3. Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.
  4. Félög, samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur.
  5. Aðra starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.


3. gr.

     Í fyrirtækjaskrá skal halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir.

4. gr.

     Í fyrirtækjaskrá skal skrá eftirfarandi upplýsingar eftir því sem við á:
  1. Heiti.
  2. Kennitölu.
  3. Heimilisfang.
  4. Rekstrar- eða félagsform.
  5. Stofndag.
  6. Nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna.
  7. Atvinnugreinarnúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.
  8. Slit félags.
  9. Önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings.


5. gr.

     Þeir aðilar sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. eða óska skráningar skv. 5. tölul. 2. gr. skulu tilkynna sig til skráningar í fyrirtækjaskrá.
     Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Tilkynningar mega vera á rafrænu formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Ríkisskattstjóra er heimilt að færa aðila sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. í fyrirtækjaskrá ef þeir vanrækja tilkynningarskyldu skv. 1. mgr.

6. gr.

     Við skráningu í fyrirtækjaskrá skal hinum skráða gefin kennitala. Með kennitölu er átt við einkvæmt auðkennisnúmer hins skráða.
     Einstaklingar með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skulu auðkenndir í fyrirtækjaskrá með kennitölu þeirra samkvæmt þjóðskrá.
     Við nýskráningu í fyrirtækjaskrá ásamt útgáfu á kennitölu skal ríkisskattstjóri taka skráningargjald samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur.

7. gr.

     Þeim sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra allar breytingar er varða skráningu skv. 1.–8. tölul. 4. gr. Opinberir aðilar skulu og láta ríkisskattstjóra í té upplýsingar sem þeir kunna að hafa og þörf er á til skráningar í fyrirtækjaskrá.
     Ríkisskattstjóri uppfærir fyrirtækjaskrá eftir tilkynningum og upplýsingum skv. 1. mgr., svo og eftir öðrum óyggjandi heimildum um starfsemi skráðra fyrirtækja.

III. KAFLI
Aðgangur að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá.

8. gr.

     Ríkisskattstjóri skal veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.
     Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar.

9. gr.

     Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta gögn úr fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar og í því skyni tengja hana öðrum skrám ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal láta Hagstofunni í té afrit af skránni eða upplýsingar úr henni eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi fyrir. Hagstofunni er skylt að fara með skrána og önnur gögn tengd henni sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

10. gr.

     Nú vanrækir aðili sem fellur undir 2. gr. tilkynningarskyldu sína samkvæmt lögum þessum og getur ríkisskattstjóri þá skyldað hann til að fullnægja skyldunni að viðlögðum dagsektum allt að 10.000 kr. fyrir hvern dag.
     Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til tilkynningarskyldu er sinnt.
     Áfallnar dagsektir falla niður þegar ríkisskattstjóri telur að tilkynningarskylda hafi verið uppfyllt.

11. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003 og skal fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands þá flytjast til ríkisskattstjóra og vera stofn fyrirtækjaskrár samkvæmt lögum þessum.
     Jafnframt falla úr gildi lög um fyrirtækjaskrá, nr. 62 28. maí 1969.
     Frá sama tíma breytast eftirfarandi lagaákvæði:
  1. Orðin „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 9. gr. laga um matvæli, nr. 93 28. júní 1995, falla brott.
  2. Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. áfengislaga, nr. 75 15. júní 1998, kemur: ríkisskattstjóra.
  3. Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 91. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 28. maí 1980, kemur: ríkisskattstjóra.
  4. Við fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80 18. maí 1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, bætist: eða ríkisskattstjóra.


Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.