Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1262  —  462. mál.
Nefndarálitum frv. til raforkulaga.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.    Frumvarp til nýrra raforkulaga hefur tvisvar áður verið lagt fram á Alþingi án þess að vera rætt, þ.e. bæði á 126. og 127. þingi. Í fyrra skiptið var því vísað til iðnaðarnefndar sem vann nokkuð í því. Á 127. þingi kom frumvarpið fram með nokkrum breytingum sem studdust við ábendingar sem fram höfðu komið við vinnu nefndarinnar árið áður. Nefndin vann ekkert í málinu á 127. þingi.
    Þæfingur hefur verið um þetta mál hjá stjórnarflokkunum og eins og sjá má á því frumvarpi sem nú liggur fyrir er ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki þrek til að takast á við málið í heild sinni. III. kafla er vísað til nefndar og enn fremur fyrirkomulagi flutnings á raforku, þ.m.t. stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess skuli háttað, uppbyggingu á gjaldskrá fyrir flutning á raforku og jöfnun raforkukostnaðar. Þessir þættir frumvarpsins eru óafgreiddir þótt frumvarpstextinn eins og hann er verði að lögum. Meðan málin eru í nefnd bíður orkugeirinn þess sem verða vill og aðrir þeir sem hagsmuna eiga að gæta. Það er miður. Þeir kaflar frumvarpsins sem nú stendur til að afgreiða endanlega hafa hins vegar verið vel unnir.
    Ný raforkulög eiga að svara efni tilskipunar frá Evrópusambandinu sem Alþingi samþykkti að fella inn í EES-samninginn vorið 2000. Með þeirri samþykkt lagði Alþingi grunninn að breytingunum sem hér eru til afgreiðslu. Þær átti að vera búið að innleiða í íslensk lög 1. júlí 2002. Samkvæmt frumvarpinu ber að tryggja forsendur samkeppni í sölu og vinnslu raforku. Lagðar eru til reglur sem eiga að tryggja jafnræði aðila til vinnslu og sölu raforku og jafnan aðgang að flutnings- og dreifikerfi. Flutningur og dreifing orkunnar eru náttúrulegir einokunarþættir þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einu kerfi sem allir framleiðendur og notendur hafi aðgang að. Eitt fyrirtæki mun stýra flutningi orkunnar um landið en mörg geta dreift henni á afmörkuðum svæðum. Samkeppni getur orðið á milli þeirra sem framleiða orkuna og síðan á milli þeirra sem selja hana á mismunandi dreifingarsvæðum, smásalanna í raforkunni.
    Samfylkingin er ekki á móti þeirri hugmynd frumvarpsins að forsendur verði skapaðar fyrir samkeppni þar sem hún á við. Öll viðleitni í þá átt að skapa jafnræði á markaði og gegnsæi ákvarðana er af hinu góða. Býsna margir fullyrða að raforkuverðið muni hækka. Því hafa menn eðlilega áhyggjur af því hver niðurstaðan verður fyrir neytendur og einnig af því hvernig gengið verður frá félagslega þættinum. Þó að ágreiningsefni séu komin í nefnd eru þau ekki leyst.
    Fyrsti minni hluti getur ekki mælt með stuðningi við frumvarpið í þeim búningi sem það er nú. Með stuðningi gætu þingmenn allt eins verið að styðja ákvæði III. kafla frumvarpsins óbreytt því að ef nefndin sem skipuð verður samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII nær ekki samkomulagi tekur kaflinn gildi eins og hann er í frumvarpinu. Sama nefnd á einnig að fjalla um hvernig jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku. Þar liggur ekkert fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. III. kafli frumvarpsins gæti því tekið gildi óbreyttur 1. júlí 2004 án niðurstöðu um jöfnun kostnaðar. Það væri algerlega óviðunandi staða.
    Það sýnir þrekleysi ríkisstjórnarinnar að hafa ekki getað tekist á við þetta verkefni á þeim árum sem hún hefur haft til verksins svo að Alþingi gæti afgreitt frá sér heildstæða löggjöf á þessu sviði. Þess í stað eru hlutar frumvarpsins afgreiddir nú en því sem aðalágreiningurinn hefur staðið um vísað í nefnd.

Alþingi, 11. mars 2003.Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.