Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1285  —  667. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sólveigu Guðmundsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 10/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/37/EB frá 5. júní 2001, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum.
    Tilskipun 2001/37/EB fellir úr gildi tilskipanir 89/622/EBE og 90/239/EBE um merkingu tóbaksvarnings og um leyfilegt hámark tjöru sem sígarettur mega gefa frá sér. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um hámarksmagn tjöru, nikótíns og kolsýrings sem vindlingar mega gefa frá sér og viðvaranir er varða heilsufarsleg atriði og aðrar upplýsingar á umbúðum tóbaksvarnings með það fyrir augum að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum með þessa vöru. Þá er mælt fyrir um tilteknar ráðstafanir sem varða innihaldsefni og lýsingu á tóbaksvörum þar sem heilsuvernd er höfð að leiðarljósi.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þegar hlutast til um það með framlagningu lagafrumvarps (415. mál, þskj. 524). Frumvarpið var afgreitt sem lög frá Alþingi 10. mars sl.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.