Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1308  —  644. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um stöðu rafmagnseftirlits og ástand raflagna á sveitabýlum.

     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við upplýsingum sem fram koma í skýrslum Löggildingarstofu – rafmagnsöryggisdeildar, nú síðast í desember 2002, um alvarlegt ástand raflagna á sveitabýlum?
    
Hlutverk Löggildingarstofu er samkvæmt lögum nr. 146/96, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, að stuðla að því að draga sem mest úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af völdum þeirra. Það gerir stofnunin m.a. með því að láta framkvæma úrtaksskoðanir á neysluveitum í rekstri (gamalskoðun) og miðla síðan upplýsingum um niðurstöður slíkra skoðana til fagmanna og almennings í landinu.
    Þetta er nákvæmlega það sem Löggildingarstofa hefur gert varðandi könnun á ástandi raflagna á sveitabýlum. Löggildingarstofa lét framkvæma skoðanir á fjórða hundrað sveitabýla vítt og breitt um landið og voru þau skoðuð af óháðum faggiltum skoðunarstofum samkvæmt skilgreindum verklags- og skoðunarreglum. Skýrslu Löggildingarstofu um niðurstöðu þessara skoðana var síðan dreift til allra lögbýla og til allra löggiltra rafverktaka í landinu.
    Það eru eigendur og umráðamenn sveitabýla sem bera svo ábyrgð á ástandi raflagna á sveitabýlum og því þeirra að sjá til þess að nauðsynlegar úrbætur fari fram á raflögnum, sé þess þörf.
    Það sama á við um ástand raflagna í öðru húsnæði. Eigendur húsnæðis bera ábyrgð ástandi og viðhaldi raflagnanna. Það er hins vegar stjórnvalda, í þessu tilfelli Löggildingarstofu að miðla upplýsingum til fagmanna og almennings um það sem betur má fara.
    Löggildingarstofa mun halda áfram á þeirri braut sem hér að framan hefur verið lýst og nú er stofnunin að láta framkvæma úrtaksskoðanir á veitingahúsum, skemmtistöðum, hótel- og gistiheimilum, iðnaðarhúsnæði, verkstæðum og fiskvinnsluhúsum. Niðurstöður þessara
skoðana verða kynntar síðar og á sama hátt og gert er í skýrslu um ástand raflagna á sveitabýlum.
    Það er einmitt á þennan hátt sem hægt er að beita sér fyrir auknu rafmagnsöryggi í landinu, þ.e. með úrtaksskoðunum og aukinni fræðslu til fagmanna og almennings.

     2.      Hyggst ráðherra endurskoða framkvæmd rafmagnseftirlits í landinu með tilliti til þess hve öryggisþáttum raflagna og rafbúnaði er ábótavant?
    Eins og margoft hefur komið fram hefur verið byggt upp öflugt og skilvirkt fyrirkomulag rafmagnsöryggismála í landinu. Teknar hafa verið upp úrtaksskoðanir í stað alskoðana með það að markmiði að ná hliðstæðum árangri en með minni tilkostnaði. Löggiltir rafverktakar og raforkufyrirtækin hafa komið sér upp skilgreindu innra öryggisstjórnunarkerfi með eigin starfsemi og því er rafverktökum og starfsmönnum raforkufyrirtækja treyst til þess að vinna verk sín af kostgæfni án óþarfa afskipta ríkisins. Upplýsingamiðlun til fagmanna og almennings hefur verið stóraukin frá því sem áður var.
    Þrátt fyrir að á mörgum sveitabýlum hafi viðhaldi raflagna ekki verið sinnt á fullnægjandi hátt er ekkert sem bendir til að tjónum af völdum rafmagns hafi fjölgað. Árlegar skýrslur Löggildingarstofu um tjón og slys af völdum rafmagns gefa ekkert slíkt til kynna.
    Því verður ekki séð að nein efnisleg rök séu fyrir því að breyta framkvæmd rafmagnseftirlits hér á landi.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir að rafmagnseftirlitsmenn starfi svæðisbundið eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, þ.e. að rafskoðunarstofur séu starfandi úti um land?

    Löggildingarstofa lætur árlega framkvæma úrtaksskoðanir á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri, ásamt úrtaksskoðunum á rafföngum á markaði fyrir á fimmta tug millj. kr. Þessar úrtaksskoðanir eru framkvæmdar af óháðum faggiltum skoðunarstofum. Skoðunarstofurnar eru í einkaeigu og því getur ráðherra ekki hlutast til um það hvar skoðunarmenn þessara fyrirtækja eru staðsettir á landinu.
    Rétt er þó að benda á að síðustu árin hefur ein skoðunarstofa á rafmagnssviði verið með skoðunarmann staðsettan á Egilsstöðum.