Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1360, 128. löggjafarþing 391. mál: kosningar til Alþingis (talning atkvæða, kjörseðlar o.fl.).
Lög nr. 15 24. mars 2003.

Lög um breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.


1. gr.

     1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     1. Norðvesturkjördæmi.
     Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Skorradalshreppur, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Borgarbyggð, Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hólmavíkurhreppur, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduósbær, Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
     2. Norðausturkjördæmi.
     Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Siglufjarðarkaupstaður, Ólafsfjarðarbær, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurbyggð, Hríseyjarhreppur, Arnarneshreppur, Hörgárbyggð, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær, Tjörneshreppur, Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Raufarhafnarhreppur, Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur, Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Norður-Hérað, Fljótsdalshreppur, Fellahreppur, Austur-Hérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
     3. Suðurkjördæmi.
     Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Gaulverjabæjarhreppur, Sveitarfélagið Árborg, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Gerðahreppur, Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur.

2. gr.

     Við b-lið 11. gr. laganna bætist: og umdæmiskjörstjórnir, sbr. 3. mgr. 13. gr.

3. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Yfirkjörstjórn getur ákveðið að í kjördæmi sé umdæmiskjörstjórn og ákveður umdæmi hennar. Skal hún kosin af yfirkjörstjórn og skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Umdæmiskjörstjórn kýs sér sjálf oddvita. Við sérstakar aðstæður getur ráðherra heimilað tvær umdæmiskjörstjórnir í hverju kjördæmi sem kosnar skulu á sama hátt.

4. gr.

     Í stað orðanna „og yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: yfirkjörstjórn og umdæmiskjörstjórn.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „Undirkjörstjórnir“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: og eftir atvikum umdæmiskjörstjórnir.
  2. Í stað orðanna „og yfirkjörstjórna“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: yfirkjörstjórna og eftir atvikum umdæmiskjörstjórna.


6. gr.

     Í stað orðanna „framkvæmdastjóra hennar“ í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: framkvæmdastjóra sveitarfélags.

7. gr.

     Í stað 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Fyrir framan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skal vera ferningur. Niður undan bókstafnum skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu eða starfsheiti og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnarinnar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða eftir atvikum umdæmiskjörstjórnar.
  2. Á eftir orðunum „utanáskrift sinni“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eða eftir atvikum umdæmiskjörstjórnar.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Yfirkjörstjórn skal einnig senda umdæmiskjörstjórn viðeigandi umslög, sbr. 2. og 3. mgr., eftir því sem við á.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 80. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Engum, sem ekki er á kjörskrá, má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema annað tveggja komi til:
    1. Hann framvísi vottorði, undirrituðu af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra sveitarfélags, um að hann afsali sér kosningarrétti þar sem hann er á kjörskrá enda hafi kjörstjórn þess kjörstaðar þar sem kjósandi hyggst neyta atkvæðisréttar borist tilkynning um hvaða kjósendum sveitarstjórn hefur gefið vottorð.
    2. Hann undirriti beiðni á sérstakt eyðublað um að afsala sér kosningarrétti í þeirri kjördeild þar sem nafn hans er á kjörskrá og að kjörstjórn á þeim kjörstað þar sem kjósandi óskar að neyta atkvæðisréttar staðfesti slíkt afsal með undirritun oddvita eða tveggja kjörstjórnarmanna.

  3. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Kjörstjórn er óheimilt að staðfesta vottorð eða beiðni um afsal kosningarréttar nema sannað verði, með þeim hætti sem kjörstjórn metur gilt, að nafn kjósanda standi á kjörskrá í annarri kjördeild í sama kjördæmi og hann hafi ekki neytt kosningarréttar þar. Skráð skal athugasemd á kjörskrá, þar sem nafn kjósanda er, um hvar hann neyti kosningarréttar og þess getið í kjörbók. Afsalið skal færa í kjörbók undirkjörstjórnar þar sem kjósandinn neytir kosningarréttar og vottorðið skal fylgja í frumriti til yfirkjörstjórnar með kjörbók þeirrar kjördeildar þar sem það er lagt fram og notað.


10. gr.

     1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo:
     Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

11. gr.

     Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 4. mgr. 90. gr. laganna kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.

12. gr.

     Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 92. gr. laganna kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða eftir atvikum til umdæmiskjörstjórnar, sbr. 1. mgr. 97. gr.
  2. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 96. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ef yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
  3. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. mgr. kemur: eða eftir atvikum til umdæmiskjörstjórnar.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
  1. Við greinina bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
  2.      Yfirkjörstjórn getur ákveðið að auk talningar hjá henni geti talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn, á öðrum stað í kjördæminu.
  3. Á eftir orðinu „hún“ í 1. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
  4. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.
  5. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 3. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.


16. gr.

     Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 98. gr. laganna kemur: eða umdæmiskjörstjórn.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 99. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
  2. Á eftir orðinu „Yfirkjörstjórn“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
  3. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: eða umdæmiskjörstjórn.
  4. Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.


18. gr.

     Í stað orðanna „framan við listabókstafinn en t.d. aftan við hann“ í 2. málsl. 1. mgr. 101. gr. laganna kemur: í ferning við listabókstafinn en t.d. utan hans.

19. gr.

     103. gr. laganna orðast svo:
     Nú kemur yfirkjörstjórn, eftir atvikum umdæmiskjörstjórn, og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur um gildi kjörseðils skal úrskurða ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
     Nú verður ágreiningur innan umdæmiskjörstjórnar eða á milli umdæmiskjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill er gildur eða ógildur og skal þá umdæmiskjörstjórnin senda hann til yfirkjörstjórnar sem úrskurðar um gildi hans.
     Nú verður ágreiningur meðal yfirkjörstjórnar um gildi kjörseðils og skal afl atkvæða ráða úrslitum. Verði ágreiningur milli yfirkjörstjórnar og einhvers umboðsmanna um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur skal leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórnin hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.
     Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna kynnir umdæmiskjörstjórn niðurstöðu talningar sinnar yfirkjörstjórn sem færir niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í kjördæminu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.
     Hafi talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn skal hún, eftir að starfi hennar er lokið, senda alla notaða kjörseðla undir innsigli til yfirkjörstjórnar og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið aðgreindum. Auk þess sendir hún yfirkjörstjórn undir innsigli utankjörfundaratkvæði sem fara eiga í kjördeild sem tilheyrir yfirkjörstjórn, sbr. 4. mgr. 90. gr., allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum, kjörbækur undirkjörstjórna sem hún hefur móttekið og einnig gerðabók sína. Yfirkjörstjórn skal fara með þessi gögn á sama hátt og þau sem eru í hennar vörslu.

20. gr.

     1. málsl. 3. mgr. 105. gr. laganna orðast svo: Sé atkvæðasending frá einhverri kjördeild ekki komin til yfirkjörstjórnar eða eftir atvikum umdæmiskjörstjórnar á þeim tíma sem nefndur er í 97. gr. skal kjörstjórnin eigi að síður opna atkvæðakassa og önnur kjörgögn á þeim tíma sem auglýstur hafði verið.

21. gr.

     Á eftir orðinu „yfirkjörstjórna“ í b-lið 123. gr. laganna kemur: og umdæmiskjörstjórna.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. mars 2003.