Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 14:23:01 (0)

2003-05-26 14:23:01# 129. lþ. -1.93 fundur 37#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Aldursforseti HÁs
[prenta uppsett í dálka] -1. fundur, 129. lþ.

[14:23]

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Nú verður minnst Halldórs E. Sigurðssonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, sem andaðist í gær, að kvöldi sunnudagsins 25. maí. Hann var 87 ára að aldri.

Halldór E. Sigurðsson var fæddur 9. september 1915 á Haukabrekku í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi og ólst upp þar og síðar í Suður-Bár í Eyrarsveit. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Eggertsson bóndi og skipstjóri og Ingibjörg Pétursdóttir húsmóðir. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti 1935--1937 og í bændaskólanum á Hvanneyri 1937--1938. Óreglulegur nemandi í Samvinnuskólanum var hann hluta úr vetri.

Halldór E. Sigurðsson var bóndi á Staðarfelli á Fellsströnd 1937--1955. Sveitarstjóri í Borgarnesi var hann 1955--1969. Við alþingiskosningarnar 1956 var hann í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Mýrasýslu og tók sæti á Alþingi þá um haustið. Hann var þingmaður Mýrasýslu 1956--1959 og þingmaður Vesturlandskjördæmis 1959--1979, sat á 27 þingum alls. Árið 1971 tók hann sæti í ríkisstjórn, var fjármála- og landbúnaðarráðherra til 1974 og landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1974--1978. Starfsmaður í Búnaðarbanka Íslands var hann 1980--1984.

Halldór E. Sigurðsson var rúmlega fertugur að aldri þegar hann tók sæti á Alþingi. Hann var vel búinn undir þingstörfin, hafði frá æskuárum fastmótaðar skoðanir á þjóðmálum og fylgdist löngum með skrifum og umræðum um þau mál. Afskipti af félagsmálum hóf hann á blómaskeiði ungmennafélaganna og var þá kjörinn til forustustarfa. Síðan tóku við störf að sveitarstjórnarmálum, fyrst í Fellsstrandarhreppi og síðan í Borgarnesi, og var hann kjörinn til ýmissa nefndarstarfa í þeim sveitarfélögum. Á Alþingi átti hann sæti í fjárveitinganefnd frá upphafi þingsetu þar til hann varð ráðherra. Á þeim árum var hann kjörinn til setu í ýmsum ráðum og nefndum utan þings og verður sá ferill ekki rakinn hér.

Halldór E. Sigurðsson tók alla sína þingmannstíð allmikinn þátt í umræðum á Alþingi. Hugðarefni hans voru landbúnaðar- og samgöngumál auk fjármála ríkisins, þeir málaflokkar sem hann tók að sér síðar í ríkisstjórn. Hann beitti sér fyrir setningu laga í þágu bændastéttarinnar og stóð fyrir bættum samgöngum á landsbyggðinni, einkum við vega- og brúargerð. Hann var vinnusamur og greiðvikinn, var ljúfmenni í viðkynningu og átti létt með að umgangast fólk.

Eftir starfslok rakti Halldór E. Sigurðsson minningar sínar í tveimur bókum. Hin fyrri heitir Í fóstri hjá Jónasi, og hin síðari Bilin á að brúa. Mörg síðustu æviárin átti hann við þungbæran sjúkdóm að stríða.

Ég bið háttvirtan þingheim að minnast Halldórs E. Sigurðssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]