Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 16:37:45 (2)

2003-05-26 16:37:45# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[16:37]

Frsm. minni hluta kjörbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég man ekki til þess, a.m.k. frá því að ég kom á þing, að kjörbréfanefnd hafi tekið jafnmikinn tíma í að skoða þau mál sem liggja fyrir henni strax í upphafi þings og nú. Það er ekki að ástæðulausu því að lögð hefur verið fram vel rökstudd kæra þar sem ýmislegt við framkvæmd kosninganna er dregið í efa.

Alþingiskosningar eru einn af hornsteinum lýðræðisins og því skiptir gríðarlegu máli að opinberar niðurstöður kosninga séu ekki dregnar í efa. Það er hlutverk Alþingis að kveða upp úr um lögmæti kosninga og fara yfir kjörbréf þingmanna. Það var hlutverk kjörbréfanefndar og ég vil segja í upphafi máls míns að ég hefði talið --- þrátt fyrir að kjörbréfanefnd hafi ekki, að því er ég man best, tekið sér jafnlangan tíma í að vinna þessa vinnu --- að við hefðum þurft að taka okkur meiri tíma til þess að fara yfir þessa hluti.

Því miður gerðist það líka að kjörbréfanefnd var ekki samstiga og verður að telja það miður því að það er mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi frá þinginu. Ég hefði talið, vegna þess sem upp er komið, að það hefði mátt ná sátt í þessari deilu með því að fresta afgreiðslu málsins um sinn og óska eftir því að yfirkjörstjórnir í öllum kjördæmum legðu fram skýrslu um framkvæmd kosninganna. Það er mikilvægt að vilji fólksins komi fram skýlaust og án þess að í efa sé dreginn. Til þess eru kosningar. Því ber að umgangast kosningar af mikilli varúð og eins mikilli virðingu og kostur er.

Það má kannski taka sem dæmi um mismunandi framkvæmd kosninganna að í sumum kjördæmum voru atkvæði sem voru merkt V færð til framboðs Vinstri grænna en annars staðar voru þau dæmd ógild. Það er mikilvægt að það sé samræmi í afgreiðslu yfirjörstjórna í kosningunum, til að mynda vegna þess að jöfnunarþingmenn eru í raun og veru kosnir á öllu landinu. Þess vegna er mikilvægt að það sé samræmd afgreiðsla hringinn í kringum landið og í öllum kjördæmum. Af þessum sökum og ýmsum öðrum höfum við, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, Jóhann Ársælsson og Ögmundur Jónasson ásamt mér sent frá okkur svohljóðandi álit og tillögur sem eru þá álit og tillögur minni hluta kjörbréfanefndar:

,,Lögð hefur verið fram til dómsmálaráðuneytisins rökstudd kæra þar sem opinberar niðurstöður alþingiskosninganna frá 10. maí sl. eru dregnar í efa. Samkvæmt 46. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33 frá 17. júní 1944, sker Alþingi sjálft úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir. Án sérstakrar rannsóknar verður ekki lagt mat á þær ásakanir sem fram koma í kærunni. Í fyrirliggjandi kæru er vísað til þess að framkvæmd kosninganna hafi ekki verið í samræmi við lög og mismunandi aðferðum hafi verið beitt við meðferð kjörgagna í hverju kjördæmi fyrir sig.

Frjálsar kosningar eru einn af hornsteinum lýðræðisins. Framkvæmd þeirra og niðurstöður verða að vera hafnar yfir allan vafa. Þar má engan skugga bera á. Því verður að taka rökstuddar ábendingar, þar sem opinberar niðurstöður kosninga eru dregnar í efa, mjög alvarlega. Ekkert má verða til þess að draga úr trúverðugleika alþingiskosninga, svo mikilvægar sem þær eru lýðræðinu. Því liggur mikið við að Alþingi vandi mjög meðferð sína á þessu máli.

Alþingi er samkvæmt 46. gr. stjórnarskrárinnar falið að úrskurða um lögmæti kosninga. Í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er fjallað um hvernig með slíkar kærur skuli farið.

Það er grundvallarregla allra sem fara með úrskurðarvald að áður en úrskurður er upp kveðinn fari fram sjálfstæð rannsókn á þeim atriðum sem um er deilt. Þessi meginregla hlýtur einnig að eiga við um mál sem koma til kasta Alþingis sem úrskurðaraðila. Því er í 5. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, heimildarákvæði þar sem segir m.a. að þingið geti við rannsókn á kjörbréfum þingmanna frestað því að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslur. Lögin gera því beinlínis ráð fyrir því að Alþingi taki að sér að rannsaka ágalla sem kunna að hafa verið á framkvæmd kosninga áður en ákvörðun er tekin um hvort hún skuli metin gild. Alþingi ber að sinna þessari rannsóknarskyldu sinni áður en endanleg ákvörðun um gildi kosninganna og kjörbréfa er tekin.

Það er eðlilegt að þessari heimild verði nú beitt þegar kjörbréf eru rannsökuð. Í þessu sambandi má nefna að í dönsku þingkosningunum árið 1984 tók danska þingið ákvörðun um endurtalningu utankjörfundaratkvæða án þess að bein heimild væri til slíks í dönsku kosningalögunum. Í kjölfar þess atviks var síðan lögfest bein heimild til handa þinginu til að ákveða endurtalningu.

Þótt ekki sé á þessu stigi gerð krafa um endurtalningu allra atkvæða má vera að slíkt kunni að vera nauðsynlegt við nánari skoðun. Það sem mestu skiptir er að vilji kjósenda nái fram að ganga og öllum vafa um annað sé eytt.

Minni hluti kjörbréfanefndar telur því rétt að Alþingi fresti því um sinn að kveða upp úr um lögmæti kosninganna og kalli eftir skýrslum. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að Alþingi fái skýrslur frá yfirkjörstjórnum allra kjördæmanna. Slík skýrsla væri sameiginleg yfirlýsing allra sem sæti eiga í kjörstjórn. Í skýrslunni yrði að tilgreina nákvæmlega hvaða aðferðum var beitt þegar úrskurðað var um gildi atkvæða, hvaða tilvik komu upp, hvers eðlis þau voru og fjölda tilvika, auk þess að upplýsa um þau meginsjónarmið sem lágu að baki úrskurðum um hvort atkvæði teldust gild eða ógild. Enn fremur þurfa kjörstjórnir að lýsa viðhorfum sínum til þeirra atriða sem gerðar eru athugasemdir við í áður tilgreindri kæru.

[16:45]

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hve miklu skiptir að meðferð kjörgagna sé sambærileg milli kjördæma. Jöfnunarþingsætum er m.a. úthlutað með tilliti til niðurstöðu á landsvísu. Þar sem örfá atkvæði skildu að einstaka frambjóðendur og réðu úrslitum um það hvort þeir næðu kjöri til þings eður ei getur mismunandi meðferð kjörgagna, mannlegar yfirsjónir við talningu o.fl. skipt miklu um endanleg úrslit kosninganna. Slík atriði gætu hafa leitt til þess að vilji kjósenda kom ekki fyllilega fram. Það er óásættanlegt. Minni hlutinn telur því að þingið verði að kanna þær ásakanir sem fram eru komnar áður en ákvörðun um gildi kosninganna er tekin.

Það yrði að telja afar óeðlilegt ef Alþingi hafnaði beiðni um að fá slíkar skýrslur. Með þessum tillöguflutningi telur minni hlutinn að eyða megi þeirri óvissu eða vafa um niðurstöður kosninganna og ná fullri sátt um afgreiðslu málsins. Það er skylda Alþingis að sjá til þess að allri hugsanlegri óvissu um niðurstöður kosninganna verði eytt. Þar er trúverðugleiki lýðræðisins í veði.``

Í samræmi við það sem ég hef nú farið yfir setjum við fram svohljóðandi tillögu:

,,Alþingi ákveður að fresta því að kveða upp úr um kjörbréf þingmanna og lögmæti alþingiskosninganna 10. maí sl., sbr. 5. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, þar til fengnar hafa verið skýrslur frá yfirkjörstjórnum allra kjördæma um meðferð kjörgagna og framkvæmd kosninganna. Kjörbréfanefnd hefur umsjón með gagnaöflun og skulu yfirkjörstjórnir í hverju kjördæmi skila skýrslum innan sjö daga frá samþykkt tillögunnar.``

Undir þessa tillögu rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson, Jóhann Ársælsson og Ögmundur Jónasson.

Ekki er nokkur vafi um það í mínum huga að þær hugmyndir sem við setjum hér fram eru mjög hógværar og hófstilltar og til þess fallnar að skapa sátt sem allir geta við unað. Það er ekkert launungarmál að ýmsir hafa viljað ganga mun lengra í þessum efnum en ég held að með því að leggja þetta upp með þessum hætti geti allir við unað. Þetta er því í reynd tilboð af hálfu stjórnarandstöðunnar um tiltekna sáttargjörð í þessu máli sem tryggir þá að Alþingi taki þannig á því að reisn og virðing sé að. Því leggjum við þetta til, virðulegi forseti.