Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 17:47:04 (5)

2003-05-26 17:47:04# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[17:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við erum að tala um hvort það eigi að staðfesta kjörbréf alþingismanna. Það er hlutverk Alþingis samkvæmt stjórnarskrá og reyndar öðrum lögum líka, þ.e. lögum um þingsköp Alþingis, að Alþingi eigi að annast þetta hlutverk. Það er gert ráð fyrir því í þessum lögum að Alþingi geti rannsakað mál, um það deila menn ekki. Og hvenær ættu menn að rannasaka mál hér hvað varðar kosningar ef ekki þegar kemur fram kæra um misfellur á kosningum?

Hér hafa engin rök verið færð fram gegn því að þessar misfellur hafi átt sér stað. Við vitum að kjörgögn hafa ekki verið meðhöndluð með sama hætti í öllum kjördæmum. Og kjörbréfanefnd er að leggja það núna til við Alþingi að atkvæði sem merkt eru V verði meðhöndluð með öðrum hætti í tveimur kjördæmum en hinum fjórum. Kjörbréfanefnd leggur það til að niðurstaðan verði með tvennum hætti hvað þetta mál varðar.

Við vitum líka að sýslumannsembættin í landinu hafa gengið með mismunandi hætti frá utankjörstaðaratkvæðum. Það hafa verið mikil brögð að því að stimplar hafa ekki verið aftan á þeim umslögum sem eru utan yfir þau umslög sem eru með innsigli embættanna, og menn hafa talið að ekki þyrfti að hafa þennan stimpil aftan á hjá sumum sýslumannsembættunum. Þessi atkvæði hafa hins vegar verið talin með mismunandi hætti, þ.e. sums staðar hafa þau verið gerð ógild en annars staðar talin með. Og hér erum við ekki að tala um tvö, þrjú atkvæði. Við erum að tala um mörg atkvæði, jafnvel hundruð atkvæða.

Líklega er það ástæðan fyrir því hver ósköp eru á milli þeirra atkvæða sem ógild voru í Reykjavíkurkjördæmunum. Ég giska a.m.k. á það. Ég sé enga aðra ástæðu sem geti verið fyrir því að það skuli vera helmingi fleiri ógild atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður heldur en Reykjavíkurkjördæmi suður. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Það er fleira sem hefur verið afgreitt með mismunandi hætti. Í sumum kjördæmum hafa kjósendur af einhverjum ástæðum ekki áttað sig á því að það ætti að opna kjörseðilinn og hafa skrifað utan á hann hvaða listabókstaf þeir kysu. Þau atkvæði hafa verið talin með mismunandi hætti á milli kjördæma.

Það eru sjálfsagt enn þá fleiri atriði sem mætti fram telja, en þessi eru kannski ærið nóg. Ég minni á að ekki er langt síðan að fram fóru uppkosningar í Borgarnesi. Og hvers vegna urðu þær uppkosningar? Það var vegna þess að eitt atkvæði fór með í talningu, eitt af átta atkvæðum sem höfðu sama annmarka fór með í talninguna. Niðurstaða félmrn. var sú að vegna þess að atkvæði höfðu fallið jafnt hvað varðaði 2. mann á lista L-lista og fjórða mann á lista B-lista í Borgarnesi yrði að kjósa að nýju. Ég tel að þetta hafi verið aðalástæðan fyrir því að þær kosningar voru gerðar ógildar.

Nú er það kannski ekkert sáluhjálparatriði að menn afgreiði kjörgögn með nákvæmlega sama hætti í öllum sveitarfélögum vegna þess að þar er verið að kjósa fulltrúa til setu í sveitarstjórn á viðkomandi stað og það ættu allir að sitja jafnt frammi fyrir þeim reglum sem eru notaðar ef þær eru eingöngu notaðar í þeirri kosningu sem verið er að telja úr. En það gegnir öðru máli þegar verið er að telja til Alþingis vegna þess að uppbótarþingmenn eru í raun og veru kosnir á landslista, landið er eitt kjördæmi þegar talið til uppbótarþingsæta. Það er þess vegna óþolandi og ekki við það búandi að menn noti mismunandi mat á því hvernig eigi að fara með atkvæði þegar í raun og veru er verið að telja atkvæði þannig að landið er eitt kjördæmi þegar upp er staðið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ástæðu til að nefna það hér --- það kom fram áðan að 18 nýir þingmenn munu vera mættir hér til þings --- að í því fyrsta máli sem hér er til umræðu reynir á hvort menn líta á Alþingi sem málstofu þar sem menn taka mark á rökum og gagnrökum og taka afstöðu, ábyrga afstöðu, til úrlausnarefna hér á Alþingi. Það er nefnilega gamalkunnugt fyrir okkur sem höfum setið hér á Alþingi að meiri hlutinn hefur tekið mál og afgreitt þau fyrir fram áður en hann hlustar á þau rök sem fram eru borin. Og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að meiri hlutinn á Alþingi setji verulega niður við það þegar hann stendur frammi fyrir því að taka á máli sem varðar svona alvarlegt atriði lýðræðisins, sem eru kosningarnar sjálfar og rökstuddar kærur sem enginn hefur, enn þá a.m.k., mótmælt hér að séu réttar, og að niðurstaðan skuli vera sú að menn ákveði að fella tillögur um að það fari fram rannsókn á málinu. Hér er einungis verið að biðja um rannsókn á þessu máli. Ég bið menn að velta því fyrir sér hvort það eigi að vera fyrsta verk þeirra, þegar þeir taka sæti á Alþingi Íslendinga, að fella tillögu um að fram fari rannsókn á því hvort þeir og aðrir þingmenn séu rétt kjörnir.

Ég segi fyrir mig að mér finnst kröfur Frjálslynda flokksins sem við fengum hér til umfjöllunar vera í sjálfu sér tvenns konar. Í fyrsta lagi er það krafa um heildarendurtalningu atkvæða. Rökin fyrir henni eru allt önnur en fyrir því sem ég var að ræða hér áðan. Rökin fyrir henni eru þau að svo naumt hafi verið á munum að það sé ástæða til þess að telja að nýju þess vegna og í sjálfu sér engin önnur rök þar á bak við, svo sem að það hafi verið misfellur á talningu eða eitthvað slíkt. Þess vegna set ég kröfuna fyrir því að telja heildaratkvæðamagnið til hliðar frá minni hendi, ég tel það ekki vera aðalatriði máls. Mér finnst aðalatriði máls vera það að hér hefur komið fram góður rökstuðningur fyrir því, því miður, að það hafi verið farið mismunandi með kjörgögn. Það er mjög alvarlegt mál og við því er bara eitt svar. Það er að ganga úr skugga um hvort rétt sé að þannig sé um þetta mál farið, hversu mikið af atkvæðum hafi þá verið talið með þannig að menn viti nákvæmlega hvernig málið liggur. Og ég tel að það sé augljóst mál að Alþingi geti breytt niðurstöðum kosninganna samkvæmt þeim tölum sem kæmu upp. Við afgreiðslu mála í kjörbréfanefndinni, sem hefur í raun og veru það hlutverk að leggja málið fyrir Alþingi, tóku menn afstöðu til þess hvort það ætti að telja tiltekin atkvæði með eða ekki. Menn eru nú þegar búnir að taka þátt í því að taka ákvörðun sem hefði getað haft áhrif á atkvæðafjölda einhvers framboðsins eða einhverra framboða hér við alþingiskosningarnar. Það ætti því ekki að vera þrætuepli hér að Alþingi geti breytt niðurstöðunum og ég held að á því leiki heldur ekki nokkur vafi.

Mér finnst að meiri hlutinn hafi hrapað að niðurstöðu sinni og að menn væru menn að meiri hér á hv. Alþingi ef þeir féllust á að þessi rannsókn færi fram og að fárra daga frestur yrði gefinn til þess að fara yfir þetta, skoða nákvæmlega hver mismunurinn var á meðferð atkvæða, telja með þau atkvæði sem hefði átt að telja með til þess að samræmi fengist í niðurstöður úr öllum kjördæmum. Þetta er í mínum huga ekkert vafamál, það er hægt, og mér finnst hafa verið færð góð rök fram fyrir því að þetta eigi að gera. Mér finnst þá lágmarkið að hér komi menn í ræðustól og rökstyðji það almennilega ef það á ekki að gera þetta. Þau rök hafa ekki komið fram, þau komu ekki fram í kjörbréfanefndinni, og þau þurfa að koma fram hér, í þessum ræðustól, til þess að Alþingi hljóti ekki mikla hneisu af þeirri niðurstöðu sem meiri hlutinn ætlar að knýja hér fram.

Ég skora á menn að koma með þessi rök og sýna fram á það hér í þessari umræðu að það sé rétt niðurstaða sem meiri hlutinn kemst hér að. Og til þess skulum við bara taka okkur þann tíma sem þarf.

[18:00]

Ég vil til viðbótar við þetta segja að ég tel að lögin um þessi atriði séu alveg skýr. Það er hlutverk meiri hluta Alþingis að taka ákvörðun um hvort þingmenn eru rétt kosnir. Við getum haldið langar ræður um hvort við viljum hafa fyrirkomulagið öðruvísi en lögin eru alveg skýr, svona er þetta. Ég tel að þegar niðurstaða meiri hluta Alþingis liggur fyrir, hver sem hún verður --- ég leyfi mér þangað til hún liggur fyrir að vonast til að menn hlusti á þau rök sem hér eru færð fram --- sé lögleg niðurstaða hvað varðar kjör alþingismanna fengin. Ég tel ekki möguleika á að menn hnekki þeirri niðurstöðu, einfaldlega vegna þess að stjórnarskráin og þau lög sem um þessi atriði gilda eru skýr. Það er þess vegna mín skoðun, ég vil að hún komi fram strax, að rétt sé að samþykkja þá niðurstöðu sem meiri hlutinn kemst að þegar hún liggur fyrir, þ.e. að samþykkja kjörbréf þingmanna þegar meirihlutaniðurstaða er fengin í þetta mál á þinginu. Þá hefur verið skorið úr deilunni. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er það hlutverk meiri hluta Alþingis að skera úr henni.

Ég vil að þetta komi fram, hæstv. forseti. Ég mun hlusta grannt eftir rökum meiri hlutans fyrir þeirri niðurstöðu að sú rannsókn sem við leggjum til að gerð verði eigi ekki að fara fram. Ég tel afar mikilvægt, hæstv. forseti, að menn gefi sér tóm til að hugsa málið ef þeir geta ekki fært fram skýr rök fyrir þessari niðurstöðu.