Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 18:41:11 (8)

2003-05-26 18:41:11# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[18:41]

Frsm. minni hluta kjörbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Það er kannski dálítið erfitt að koma upp nú eftir þessa umræðu þar sem engin rök hafa verið færð fram gegn því að fara þá leið sem minni hluti kjörbréfanefndar hefur lagt til. Hér er ekki tekist á í rökræðum, hér er ekki tekist á um hlutina eins og vera ber. Það hefur enginn stjórnarliði tekið til máls að undanskildum hv. formanni kjörbréfanefndar, sem reyndar rökstuddi á engan hátt þá niðurstöðu og þá leið sem þeir lögðu til. Þess vegna hefur umræðan algerlega einkennst af því að stjórnarandstaðan hefur fært rök fyrir máli sínu og reyndar sett málið þannig fram að það ætti ekkert að vera í veginum fyrir því að sú leið sem hér hefur verið lögð til, verði farin.

Einhvern tíma var það svo á hinu háa Alþingi og mér er sagt að a.m.k. árið 1956 hafi umræða um kjörbréf tekið sex daga. Umræða um úrskurð kjörbréfa hafi tekið sex daga þar sem menn tókust á á lýðræðislegan hátt í umræðum um lýðræðið, hvernig ætti að afgreiða hlutina.

Ég heyrði það á göngum áðan af einum hv. þm. að stjórnarandstaðan væri í málþófi. Það er með ólíkindum að menn skuli taka sér þau orð í munn þegar við erum að ræða um hornsteina lýðræðisins, það er með hreinum ólíkindum, og ekki aðeins það við höfum sett fram okkar sjónarmið á mjög málefnalegan hátt. Við höfum lagt fram leið sem verið hefur í stjórnarskránni frá 1874 og í þingsköpum frá 1903. (EKG: Ætlarðu að vitna meira í umræður frá árdögum þingsins?) Það er ekkert annað sem hér er lagt til en að fara leiðir sem hafa verið í lögum og stjórnarskrá á annað hundrað ár. Það er verið að leggja til að fara þessa leið. Þingmenn sjálfir eru að leggja sig undir í þessari umræðu vegna þess að það eru kjörbréf þeirra sem hugsanlega eru í veði ef endurtalning eða rannsókn leiðir til einhvers annars. Þetta er alveg grafalvarlegt mál. Ég væri virkilega tilbúinn til þess að taka þátt í umræðu um hvað það er í okkar málflutningi sem gerir það að verkum að menn eru ekki tilbúnir að fara þessa leið. Hvað sjá menn í okkar málflutningi sem ekki gengur upp? Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir svo við getum skipst á skoðunum. Umræðan þróast óskaplega lítið ef menn segja bara: Af því bara. Þess vegna vil ég gagnrýna meiri hlutann fyrir að taka ekki þátt í jafnmikilvægri umræðu og hér fer fram.

Íslendingar hafa oft og tíðum barið sér á brjóst fyrir að vera í forustu í lýðræðismálum í heiminum. Við höfum sent fulltrúa víða til útlanda til þess að hafa eftirlit með kosningum í öðrum löndum og farist það, að ég tel, vel úr hendi. Það hefur hins vegar verið dregið fram hér að framkvæmd kosninganna var ekki sem skyldi. Það er kannski rétt að fullyrða það ekki en sett hafa verið fram mjög sterk rök fyrir því að svo hafi ekki verið. Og það er líka annað sem við vitum að það var lítill munur á því hvað menn þurftu að fá til þess að vera kjörnir þingmenn eða til þess að ná ekki kjöri. Þess vegna er svo mikilvægt að yfir þetta sé farið vegna þess að kosningar eru og verða aðferð til þess að kalla fram vilja kjósenda, vilja íslenskra ríkisborgara um hverja þeir vilja sjá á Alþingi eftir tiltekum reglum. Ef upp kemur efi um að þessi vilji sé uppi á borðum þá ber að skoða það.

[18:45]

Hvað mundu menn t.d. segja ef endurtalning eða frekari umfjöllun leiddi til --- ég gef mér það --- að einn þingmaður frjálslyndra kæmi inn til viðbótar? Þýddi þessi höfnun þá að vilji kjósenda kæmi ekki fram vegna þess að framkvæmd kosninganna hafi ekki verið í lagi? Þetta er grafalvarlegt mál og þess vegna er það lagt upp með þessum hætti.

Í umræðunni sem átti sér stað í kjörbréfanefnd voru sett fram þau sjónarmið að þar sem umboðsmenn flokkanna hefðu ekki gert athugasemdir gæti það hugsanlega haft þær afleiðingar að menn gætu ekki haldið málinu áfram. Umboðsmenn flokkanna eru sjálfboðaliðar sem bjóða krafta sína í þessa vinnu. Þeir hafa enga yfirsýn yfir það sem er að gerast annars staðar og fá enga kennslu í þessum fræðum. Það er allsvakalegt ef menn ætla að setja þá ábyrgð á herðar þeirra manna, að ef þeir geri ekki tiltekinn fyrirvara þá missi flokkar þeirra réttinn, þá missi menn rétt sinn. Þetta er röksemdafærsla sem heldur hvorki vatni né vindum. Þetta má ekki vera í umræðunni. Framkvæmd kosninga á Íslandi má ekki standa og falla með því hvort sjálfboðaliðar þekki kosningareglurnar út og inn. Það má aldrei verða þannig.

Það hefur einnig komið fram að Alþingi ber vitaskuld að sinna rannsóknarskyldu sinni, af því að Alþingi er úrskurðaraðili. Gefum okkur til að mynda að dómstólar mundu vinna þannig, að ef inn kæmi kæra þá kæmi dómur. Það skortir alla rannsókn til að fara yfir það sem fram er komið. Hvernig eigum við að taka afstöðu til þess sem fram er komið ef enginn ætlar að fara yfir þetta? Ég lít svo á að við höfum ekki forsendur til þess, það er mitt mat.

Við leggjum því til að yfirkjörstjórnir í öllum kjördæmum gefi skýrslu um framkvæmd kosninganna. Ég held að það sé hægt að taka þetta fyrir og ljúka þessu á örfáum dögum. Sennilega hefði það ekki skipt miklu hvort þingið væri kallað saman í dag eða hvort það hefði verið kallað saman eftir viku. Það hefði ekki breytt miklu.

Við erum ekki að setja neitt í uppnám. Það eina sem lagt hefur verið til er að við tryggjum að allir séu sáttir við niðurstöðu kosninga sem haldnar eru til að kalla eftir vilja hins almenna kjósanda, hins almenna Íslendings, að þær uppfylli tiltekin skilyrði. Þetta er allt og sumt sem lagt er upp með og þess vegna finnst mér sorglegt að meiri hlutinn skuli ekki taka þátt í þessari umræðu.

Ég geri fastlega ráð fyrir því og gef mér að meiri hlutinn hér á þingi muni fylgja meiri hluta kjörbréfanefndar. Ég hefði viljað heyra sjónarmið meiri hlutans, rök sem við hugsanlega hefðum kannski getað tekist á um á hinu háa Alþingi. Fyndist mönnum mikið þó að þessi rök kæmu fram? Finnst mönnum það stór krafa þegar sjálft lýðræðið er undir, umræðan um lýðræðið?

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi komið að sjónarmiðum mínum við þessa umræðu. Um leið vil ég segja að hún hefur verið gagnleg. Menn hafa dregið fram mjög sterk rök fyrir því að fara þá leið sem við viljum fara á meðan engin rök hafa komið fram gegn þeirri leið.