Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:37:41 (15)

2003-05-26 19:37:41# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það voru brotalamir á framkvæmd kosninganna. Einstök framkvæmdaratriði voru gagnrýni verð og ef ég skildi hv. formann kjörbréfanefndar tók hann undir þetta. Hann varaði okkur engu að síður við því að líkja okkur við þjóðir sem búa ekki við sömu lýðræðishefð og við gerum.

Einmitt þess vegna, vegna þess að við viljum að Ísland rísi undir nafni sem lýðræðisþjóð, erum við að krefjast vandaðra vinnubragða. Ég ætla að nefna eitt atriði hér.

Það hefur komið fram að fjöldi fólks notaði listabókstafinn V til að kjósa Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð. Það hefur komið fram og við höfum sýnt fram á það í gögnum að upplýsingar um þetta efni eru runnar frá íslenskum stjórnvöldum, dómsmrn. Þess vegna var þetta t.d. á vef SÍNE. Þess vegna tóku yfirkjörstjórnir í fjórum kjördæmum þá afstöðu að telja þessi atkvæði til Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Tvö kjördæmi gerðu það hins vegar ekki. Og það eru þau atkvæði sem við fáum hingað til úrskurðar í kjörbréfanefnd og það var þar til álita í dag.

Ég spurði hv. þm., formann nefndarinnar, hvort hann væri þá á því máli að kjördæmin fjögur hefðu úrskurðað ranglega, og hann segir: Þetta álitamál er ekki uppi á borðum hér. Og ég segi: Jú. Ég er að bera þessa spurningu fram formlega. Ég er kjörinn í kjörbréfanefnd, ég er hér með efnislega spurningu og er að óska eftir efnislegu svari. Ég endurtek þessa efnislegu spurningu hér og vænti þess að fá efnislegt svar.