Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:41:03 (17)

2003-05-26 19:41:03# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta nú alveg á mörkunum. Við erum að taka afstöðu til álitamála sem fyrir okkur eru lögð. Ég er að leggja spurningu fyrir hv. þingmann og hún er þessi: Er réttmæt sú ákvörðun tveggja yfirkjörstjórna að hafna því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fái bókstafinn V, að það sé viðurkennt á sama hátt og gerðist í fjórum kjördæmum öðrum? Við erum væntanlega að taka afstöðu til þessa álitamáls. Er það rétt eða er það rangt að hafna bókstafnum V fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð? Þetta er hið efnislega álitamál sem var á borðum okkar í dag.

Ég er að spyrja: Hvað er rétt og hvað er rangt í þessu efni?