Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:54:47 (26)

2003-05-26 19:54:47# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:54]

Frsm. minni hluta kjörbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsaði mér að tala oftar í þessari umræðu en get ekki orða bundist eftir að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tók að sér að útskýra tillögu sem við höfum lagt fram þannig að ekki verður við unað.

Kjarninn í því sem hér er lagt til af hálfu minni hlutans er að fram fari rannsókn á því hvort framkvæmd kosninganna hafi verið í lagi. Það má draga þetta upp með þessum hætti. Um það snýst málið. Var framkvæmd kosninganna í lagi? Við erum að kalla eftir upplýsingum um þetta inn í þingið til að geta tekið afstöðu til málsins. Ef það síðan kæmi í ljós í þeirri rannsókn að framkvæmdin hafi verið enn verri en gefið er í skyn í þeirri kæru sem liggur fyrir, sem vel er rökstudd, þá finnst mér einboðið að menn skoðuðu hvort fram ætti að fara endurtalning.

Það er einfaldlega þannig að Alþingi er úrskurðaraðilinn. Það liggur fyrir kæra en það vantar allar rannsóknir og upplýsingar til að geta tekið afstöðu. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson orðaði það sjálfur þannig að það skorti ákveðnar forsendur til að taka afstöðu. Ég vil taka undir það. Þetta er það sem málið snýst um. Þetta er það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson las upp úr greinargerðinni áðan. Við erum að tala um að áður en afstaða er tekin til málsins liggi allar upplýsingar fyrir. Í eðli sínu er málið hvorki stærra né minna en þetta. Það er stórmál hvernig framkvæmd kosninga er háttað.

Við munum kalla eftir upplýsingum um það. Er til of mikils mælst að við fáum þessar upplýsingar fram? Ég ítreka að þær skýrslur sem liggja fyrir hjá yfirkjörstjórn lúta ekki að því sem við höfum óskað eftir. Þær upplýsingar sem lágu fyrir í kjörbréfanefnd, þegar við vorum að taka afstöðu til vafaatkvæða, gáfu ekki til kynna forsendur fyrir því að atkvæðin voru flokkuð á tiltekinn hátt.

Ég vil leyfa mér að taka eitt dæmi. Eitt atkvæði sem fram kom úr Suðurkjördæmi var þannig að það var merkt X við S þannig að afstaða kjósanda kom fram með skýrum hætti. Reyndar hafði verið skrifað í réttan reit: ,,Niður með Davíð.`` Þetta var skrifað í réttan reit. Það hafði ekki verið skrifað annars staðar, bara í þennan reit. Ég held að við getum fullyrt að vilji kjósandans hafi verið mjög skýr. (ÁRJ: Mjög skýr.) Ég held að það sé ekki stórt upp í sig tekið.

(Aldursforseti (HÁs): Vilja þingmenn gefa hljóð?)

Virðulegi forseti. Ég kvartaði ekki yfir hávaða.

(Aldursforseti (HÁs): Ég kvartaði.)

Það sem ég vildi sagt hafa er að vilji kjósandans kom fram með mjög skýrum hætti. Það er ekki hægt að segja, þó að þetta hafi verið ritað, að atkvæðið hafi verið auðkennt á einhvern hátt þannig að það hefði mátt ganga úr skugga um hver setti þetta fram nema þá að fara í miklar rithandarsýnishornapælingar yfir allt kjördæmið, allt Suðurkjördæmið. Þetta lá vitaskuld fyrir. Þetta atkvæði var dæmt ógilt og engar forsendur fyrir því og engar skýringar. Kjarninn er náttúrlega sá að vilji kjósenda komi fram. Ég held að hann verði vart settur fram á skýrari hátt en þarna var gert. En þetta atkvæði var dæmt ógilt án þess að fyrir því væru nokkrar forsendur.

Virðulegi forseti. Ég dró fram þetta dæmi til að sýna að við finnum ekki forsendurnar og rökin. Við erum að reyna að kalla þau fram. Var framkvæmd kosninganna í eins góðu lagi og gat verið eða var svo ekki? Vegna þess hversu litlu munaði finnst mér að þetta þurfi að vera skýrt og allri óvissu eytt. Þetta er allt og sumt, virðulegi forseti, sem við erum að fara fram á.