Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:59:18 (27)

2003-05-26 19:59:18# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:59]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðeins ein spurning sem mig langar að bera fram við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Hv. þm. velti í máli sínu upp fræðilegri spurningu um að ef sú kæra eða þessar skýrslur sem hv. þm. hefur verið að kalla eftir leiddu í ljós að ástandið væri, eins og ég held að hann hafi orðað það, verra en fram kemur í kæru Frjálslynda flokksins þá kynni það að leiða til þess að menn yrðu að fara fram á endurtalningu.

Mér fannst að lesa mætti út úr máli hv. þm. að hann teldi að kæra Frjálslynda flokksins, eins og hún liggur fyrir, þau sakarefni sem þar væru nefnd, gæfu ekki tilefni til endurtalningar. Ef svo er, sem óhjákvæmilegt ályktun af orðum hv. þm., þá skil ég vel að þetta hafi orðið niðurstaða minni hluta kjörbréfanefndar. Kjörbréfanefndin leggur sem sagt ekki til, á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar liggja fyrir, að krefjast eigi endurtalningar, að það sem þarna sé aðfinnsluvert kalli ekki á frekari aðgerðir af því tagi. Þá sýnist mér að munurinn á milli afstöðu meiri hlutans og minni hlutans sé kannski ekki svo mjög mikill.