Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 20:04:33 (31)

2003-05-26 20:04:33# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, HHj
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[20:04]

Helgi Hjörvar:

Herra forseti. Er hæstv. dóms- og kirkjumrh. í salnum? (Gripið fram í: Já.) Svo er, já. Þá vil ég byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að kalla hæstv. dómsmrh. í salinn því að ég hafði hugsað mér að eiga orðastað við hann og verð að lýsa mig ósammála hæstv. forseta um það að ég hlýt að líta svo á að hér fari umræðan öðrum þræði fram um framkvæmd kosninga og þeir handhafar framkvæmdarvaldsins sem bera ábyrgð á framkvæmdinni, einkanlega dómsmrh. og utanrrh., hljóti að hafa nokkra skyldur í umræðunni þó að ég skilji að hæstv. utanrrh. er löglega forfallaður í umræðunni, bundinn á forsetastóli sjálfur.

Ég verð sem nýliði í þessum sal að lýsa nokkurri undrun á því sem ég verð að kalla málleysi meiri hlutans í þinginu, málleysi stjórnarmeirihlutans. Það má furðu sæta hér á fyrsta degi þingsins við efnislegar og málefnalegar umræður um nýafstaðnar alþingiskosningar, að þá sé ekki nema einn maður af 35 manna stjórnarmeirihluta sem sjái ástæðu til að tjá sig um framkvæmd kosninganna sem þó varðar þingið miklu. Það er engu líkara en stjórnarliðið ,,nenni`` ekki að standa í umræðunni og ég sem nýr þingmaður læri það í fréttatíma sjónvarpsins að svo sé komið að jafnvel forsrh. ,,nenni`` ekki að flytja stefnuræðu á Alþingi þetta vorið.

Ég hlýt að spyrja mig hverju það sæti að menn taki ekki umræðu um grundvallarmál, sem ég hygg að sé ekki umdeilt, að við framkvæmdina má hafa aðfinnslur, við framkvæmd alþingiskosninganna má hafa málefnalegar aðfinnslur ...

(Aldursforseti (HÁs): Ég vil biðja hv. þm. að gæta orða sinna. Það er óþarfi að tala til ráðherra og þingmanna með þessum hætti. Þingmenn sinna sínum skyldum og ég tel það ekki vera við hæfi að viðhafa það orðbragð um störf þingmanna og ráðherra. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvaða orðbragð er það?) (Gripið fram í: Hvaða orðbragð er verið að víta?) Ég er ekki að víta. Hv. þm. sagði að viðkomandi þingmenn og ráðherrar ,,nenntu`` ekki að ... (Gripið fram í.) Ég tel það ekki við hæfi að viðhafa það orðbragð hér á Alþingi. (Gripið fram í: Er ekki málfrelsi hér?)

Herra forseti. Ég verð að mótmæla þessum orðum hæstv. forsetans. Ég var boðaður til þings í dag og mér var gerð grein fyrir því að hér færi fram í kvöld umræða um stefnuræðu forsrh. Ég las mér til í þingsköpum um að mér skyldi afhent þremur sólarhringum fyrir flutning stefnuræða forsrh. en hef enga séð og heyri það síðan í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins að það verði ekki flutt nein stefnuræða. Lái mér hver sem vill, herra forseti, þó að ég lýsi undrun minni á vinnubrögðum ef þau eru með þessum hætti í þessum sal og að það eigi nokkurt erindi hér í ræðustólinn.

En aftur að efni málsins sem eru álit meiri og minni hluta kjörbréfanefndar sem hér liggja fyrir. Ég hlýt að hvetja stjórnarliða til að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að ég get út af fyrir sig deilt þeim sjónarmiðum með Einari K. Guðfinnssyni að ég tel ekki ástæðu til að ætla að hér hafi verið neinar slíkar brotalamir á framkvæmd kosninganna að miklum úrslitum muni ráða. Hér mun hvorki stjórnin standa né falla með þeim atriðum sem kunna að hafa farið úrskeiðis í framkvæmd kosninganna né önnur slík örlagarík atriði verða. Trúlega mun það engin áhrif hafa á niðurstöðu kjörs þeirra þingmanna sem hér sitja. En það er mikilvægt að allir séu vissir um þetta og það er málefnalegt sjónarmið að óska eftir því að það sé kannað til hlítar. Og ég get ekki skilið að meiri hlutanum í þinginu liggi svo á að komast í sumarfrí að það geti ekki beðið einhverja daga og að vel verði gengið úr skugga um að við sem hér sitjum séum tryggilega til þess rétt kjörin og öllum vafa um það eytt.

Ég held að því hafi ekki verið haldið fram að meiri vanhöld hafi verið á framkvæmd kosninga nú en áður hafi verið en ég held að fram hafi komið í umræðum mörg þau atriði sem betur máttu fara. Hér hefur verið upplýst að framkvæmdarvaldið upplýsti ranglega um listabókstaf tiltekins framboðs. Hér hefur verið upplýst um það að úrskurðað hafi verið með einum hætti um atkvæði greitt V í fjórum kjördæmum og með öðrum hætti í tveimur kjördæmum. Getur löggjafarþingið bara ákveðið að hvort tveggja sé gilt? Geta menn bæði staðið og setið? (Gripið fram í.) Hljóta menn ekki að þurfa að taka hér af skarið og úrskurða annaðhvort að atkvæði greidd V séu gild á landinu öllu eða ógild? Eða á staða kjósenda að ráðast af hendingu um það í hvaða kjördæmi þeir eru? (Gripið fram í: Heyr.)

Hér hafa sömuleiðis komið fram rökstuddar aðfinnslur við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu og ég vil sérstaklega nota tækifærið til þess að hvetja hæstv. utanrrh. til að fara vandlega yfir þau mál í sínu ráðuneyti því að þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði hér um þá framkvæmd alla áðan áttu margt til síns máls.

Ég vil líka segja vegna hinna mörgu ógildu atkvæða í mínu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður, að ég tel ástæðu til þess að ætla að fyrir þeim mikla fjölda sé fyrst og fremst ein ástæða. Hún er sú að kjörseðill er afhentur samanbrotinn. Nú er það svo, herra forseti, að það eru ekki allir kjósendur sem átta sig á því að inni í seðlinum eru listar framboðanna og þar rennur mér nokkuð blóðið til skyldunnar, herra forseti, því að það vill svo til að ég sé nánast ekki neitt sjálfur. Ég get ekki kosið sjálfur hjálparlaust, þ.e. ég þarf hjálpargögn við að krossa í kjörseðillinn minn. Það vill svo vel til að ég er vel upplýstur um það vegna þess að ég var framkvæmdarstjóri Blindrafélagsins áður og þekki þau úrræði sem til staðar eru. Það er alveg ljóst að fjöldi sérstaklega eldri kjósenda áttar sig ekki á því að opna seðilinn og áritar hann í góðri trú með krossi og þeim bókstaf sem þeir hafa fylgt kannski áratugum saman í hverjum kosningum á fætur öðrum. Og víðast hvar hygg ég að þarna hafi menn úrskurðað svo að hér komi vilji kjósandans skýrt og vel fram. X-D eða X-S eða hvað sem hann nú hefur merkt utan á kjörseðilinn en í Reykjavíkurkjördæmi norður hafi þessir seðlar verið úrskurðaðir ógildir. Mér finnst það, herra forseti, ekki vera boðleg framkvæmd á kosningu ef tugir atkvæða í mínu kjördæmi hafa verið úrskurðaðir ógildir þó að skýrlega stæði á þeim kross og listabókstafur og að í flestum ef ekki öllum öðrum kjördæmum hefðu þessi atkvæði verið talin gild. Og vegna orða hv. þm. Einar K. Guðfinnssonar hér áðan um að skýrslur væru fyrirliggjandi vil ég segja að ég tel að það sé ekki fyrirliggjandi hvers vegna atkvæðin voru úrskurðuð ógild, það liggi ekki fyrir í þeim bókunum sem fram hafa verið lagðar og að sérstaklega þurfi að kanna hvort sú skýring sem ég hef hér vitnað til eigi við rök að rök að styðjast. Ég tel að þingið ætti að hlutast til um að þessi atkvæði væru dæmd gild og þessum kjósendum sýnd sú virðing að þeirra augljósi vilji nái fram að ganga í kosningunum.

Allt um það, herra forseti. Mér sýnist hér allt á eina bókina lært. Hér á einfaldlega að keyra fram vilja stjórnarmeirihlutans og hafa helst ekki nema einn stjórnarþingmann í umræðunum. En ég vil leyfa mér, herra forseti, að beina þeim spurningum til hæstv. dómsmrh., í þeirri von að við getum haft eitthvert gagn af þessari umræðu, hvort hann telji að í umræðunni hér eða undanfarna daga hafi komið fram rökstuddar, efnislegar aðfinnslur við framkvæmd kosninganna einkum hvað varðar framkvæmd þeirra í utankjörfundaratkvæðagreiðslum hjá sýslumannsembættunum. Í öðru lagi, ef svo er, hvort hæstv. dómsmrh. hafi hugsað sér að vinna á kjörtímabilinu að endurbótum er varða framkvæmd kosninganna þannig að við stöndum ekki í þessum sömu sporum að fjórum árum liðnum því mikilsverðast er trúlega að læra af því sem dregið hefur verið fram í dagsljósið. Í þriðja lagi hvort hæstv. dómsmrh. sjái tilefni til þess að endurskoða kosningalöggjöfina, m.a. með tilliti til þess sem bent hefur verið á að orka kann tvímælis, að þingið sjálft úrskurði um kjör sitt og sömuleiðis að þar sé til að mynda ekki að finna neinar leiðbeiningar um endurtalningu. Og í fjórða lagi --- og það finnst mér nú kannski mest um vert og legði mesta áherslu á við hæstv. dómsmrh. að hann svaraði í dag vegna þess að mér finnst það varða efni máls --- er sú ábending sem kom frá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni um að eftir að kjörbréf hefðu verið samþykkt, þá væri út af fyrir sig heimilt að eyða kjörgögnum. En fyrir liggur kæra vegna kosninganna og ég vil þess vegna spyrja hæstv. dómsmrh. um það beint og óska eftir því að hann svari því hér hvort hann muni beita sér fyrir því að kjörgögnum úr þessum kosningum verði ekki eytt fyrr en kærumál hafa verið leidd til lykta.