Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 20:15:43 (32)

2003-05-26 20:15:43# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, KLM
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[20:15]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta ítreka og taka undir þær spurningar sem hv. þm. Helgi Hjörvar lagði fram til hæstv. nýskipaðs dómsmrh. Ég endurtek þær og óska eftir því að hæstv. dóms- og kirkjumrh. svari þeim spurningum hér til þess að við getum þá a.m.k. haft það út úr því frá stjórnarmeirihlutanum eftir þær umræður sem hér hafa orðið í dag að það sé full ástæða til að skoða ýmislegt í framkvæmd kosninganna. Kem ég kannski betur að því síðar.

Hér hefur komið fram frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem skrifa undir það nál. og flytja þá tillögu sem hér er m.a. verið að ræða að þetta sé tilboð okkar til stjórnarinnar, tillaga til málamiðlunar, sáttaleið, og það er það sem mér finnst mjög alvarlegt mál, hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að þegja það í hel. Nýliðarnir sitja hér sem betur fer, hv. þm., og fylgjast með en aðrir eru, eins og vant er, á hálfgerðum handahlaupum frá þessari umræðu og taka ekki þátt í henni ef frá er skilinn hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem er talsmaður kjörbréfanefndar og hefur tekið þátt í umræðunni.

Mér þótti mjög athyglisvert að hlusta á þingsetningardegi á ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hvernig hann lýsti því hvernig atkvæði sem merkt voru V voru meðhöndluð í fjórum kjördæmum af sex. Í tveimur kjördæmum eru þessi atkvæði ekki tekin gild en í fjórum kjördæmum af sex er listabókstafurinn V á utankjörfundaratkvæði, stimplaður eða skrifaður, tekinn gildur. Hér er það meiri hluti kjörbréfanefndar sem tekur sig svo til eftir kæru og fellir þann úrskurð að ógilda þessi atkvæði, fulltrúar stjórnarmeirihlutans, Sjálfstfl. og þess ég kalla stundum litla Sjálfstfl., Framsfl. Þetta atriði er í raun og veru nóg til þess að taka þessa umræðu upp og spyrja: Á hvaða vegferð erum við hér gagnvart kosningum? Þetta er mjög alvarlegt mál.

Segjum nú sem svo að það hefði kannski munað bara tveimur atkvæðum í einhverju kjördæmi og hér væru tvö V-atkvæði sem væru dæmd ógild í einu kjördæmi en tekin gild í öðru. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Og það er þetta auðvitað sem er æskilegt að hæstv. dóms- og kirkjumrh. tjái sig um á eftir og láti þá í ljósi skoðun sína á því hvort hann telji ekki að hér séu komnar fram brotalamir sem vert sé að taka til endurskoðunar og skoða, og að dóms- og kirkjumrn. eigi þá að gefa út leiðbeinandi fyrirmæli til kjörstjórna um hvernig skuli meðhöndla þessi atkvæði.

Herra forseti. Það kemur stundum fyrir að hv. Alþingi sendir alþingismenn Íslendinga út í lönd til að hjálpa til við framkvæmd kosninga og sjá til þess að þar fari allt löglega fram. Getur verið, herra forseti, að við þurfum að fá aðstoð erlendis frá við næstu alþingiskosningar? Ég bara spyr. (Gripið fram í.) Þetta er mjög alvarlegt mál vegna þess að þetta er auðvitað aðalþátturinn í lýðræðinu, kosningar, og þær verða að vera hafnar yfir það að það séu einhver deiluatriði. Nú vil ég taka það skýrt fram, herra forseti, að ég tel að þessi leið sem hér er verið að tala um eða þau atkvæði sem hafa verið dæmd ógild breyti kannski ekki miklu um niðurstöðu kosninganna. En ákaflega er það mikilvægt að þau eyði tortryggni, sem er, og það að við skulum hér jafnvel vera að ræða um framkvæmd kosninga, hvernig atkvæði eru meðhöndluð og þetta sem hér gerðist, er tortryggilegt fyrir utan það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti með auglýsingar hjá SÍNE og öðrum. Ég hafði ekki heyrt þetta áður. Ég verð að viðurkenna það. Mér þykir mjög undarlegt að þetta skuli hafa gerst. Þetta er auðvitað mismunun, þetta er framkvæmd sem er ekki hægt að una við.

Jafnframt kemur flatt upp á mann þegar hv. þm. Helgi Hjörvar lýsir því fyrir okkur úr ræðustól á Alþingi á þingsetningardegi hvernig atkvæði voru meðhöndluð eftir því hvort þau voru greidd sunnan eða norðan Hringbrautar eða hvað þetta heitir hér, hvernig Reykjavík er skipt niður, að atkvæði séu meðhöndluð á annan hátt í Reykjavík suður en Reykjavík norður. Halló, halló, á hvaða vegferð erum við? Við teljum okkur vera mikið lýðræðisríki og, eins og hér hefur komið fram, við erum tölvuvædd þjóð og vitum ekki af neinum nýjungum í þeim efnum án þess að við séum komin með þær daginn eftir. Samt getum við ekki framkvæmt kosningarnar skammarlaust. Þetta er alveg með ólíkindum. Og það er eiginlega alveg með ólíkindum að við skulum fara af stað í alþingiskosningar þar sem menn verða þess áskynja að hjá nokkrum sýslumönnum, umboðsmönnum dómsvalds á Íslandi, neiti þeir að taka við atkvæðum í viðkomandi kjördæmi og segja að það verði að senda það á einhvern annan stað í kjördæminu til að senda það jafnvel aftur til baka. Erum við ekki á árinu 2003, herra forseti, og hvernig má það vera að svona framkvæmd geti átt sér stað og verið með svona klúðri? Auðvitað er þetta ekkert annað en klúður.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að í upphafi þings í dag þegar allir þingmenn hlakka til og mikil eftirvænting er yfir því að sitja hér og ganga til messu, ganga til þingsetningar og vera hér á þessum virðulega degi, setur þessi dagur mjög niður að mínu mati við að þurfa að takast á um þessi atriði. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hefði talið það oddvitum ríkisstjórnarflokkanna til mikils hróss, sama hvort það er sitjandi hæstv. forsrh. eða væntanlegur hæstv. forsrh., ef þeir hefðu tekið í spottann og lagt til í þingflokkum sínum að tillaga stjórnarandstæðinganna yrði samþykkt til að taka af allan vafa um það sem við erum hér að takast á um í stað þess að setja þennan ljóta blett á þingsetningardaginn.

Ég veit ekki hvort ég á að segja það, herra forseti, en það var á augnabliki í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem kom í mig hálfgerð Flórídatilfinning. Það rifjuðust aftur upp fyrir mér forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og það klúður sem varð í einu fylki þess, Flórída, við talningu atkvæða þar sem menn rifust endalaust um það hvort einhverjar talningavélar eða einhverjar götunarvélar væru í lagi eða ekki í lagi. Þetta er alveg með ólíkindum. Og ég veit ekki hvort ég á að voga mér að nefna það en þetta minnir mann auðvitað á talningardag í prófkjöri Sjálfstfl. í Norðvesturkjördæmi í Borgarnesi, það klúður sem þar var. Við erum jú að fjalla um leynilegar kosningar og þær eiga að vera hafnar yfir allt sem heitir einhver deiluatriði og ef það koma upp deiluatriði eins og í þessu tilfelli milli stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna --- sem á náttúrlega ekki að vera --- á auðvitað að vera sá bragur á að við segjum: Allt í lagi. Það er sjálfsagt að skoða þetta atriði. Förum í gegnum þetta. Tökum okkur þann tíma sem þarf, skoðum þetta og kíkjum á niðurstöðuna. Það kæmi kannski ekkert annað út úr því en það að við höfum sofið á verðinum, gleymt okkur, dómsmrn., fyrrv. hæstv. dómsmrh. og ráðuneyti hennar, við að gefa út leiðbeinandi fyrirmæli til kjörstjórna um þetta.

Reyndar er í kosningalögunum kveðið á um það að sé enginn vafi á því að vilji kjósanda komi fram eigi að dæma það atkvæði gilt jafnvel þó að það sé skrifað á bakhlið kjörseðils eins og hér hefur verið kveðið á um. Það er vilji kjósandans að kjósa þann listabókstaf og þá á að taka það atkvæði gilt eins og gert var í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, sennilega Reykjavík suður. Og það á ekki heldur að þurfa í raun og veru að senda leiðbeiningar til sýslumanna um það að þeir eigi að taka við utankjörstaðaratkvæðum á sínum stað í sínu kjördæmi og senda þau með öðrum kjörgögnum. Það á heldur ekki að þurfa að taka það fram, ef það er rétt að vanti einhvers staðar stimpil sýslumannsembættis eða umboðsmanns sýslumanns í utankjörfundaratkvæðagreiðslu aftan á umslag eigi ekki að gera það atkvæði ógilt á neinn hátt. Stimpill inni á fylgiblaði og undirritun fulltrúa sýslumanns er stimplun um það að atkvæði er greitt og eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um úr einu kjördæmi er þess ekki krafist að stimpill sé aftan á. Það er hins vegar gert ef kjósandi tekur atkvæði sitt og sendir það sjálfur til þess að viðtakandi kjörstjórn geti þá séð hvaðan atkvæðið kemur og hvar hefur verið kosið. En ég vona að það sé ekki þannig að atkvæði hafi verið gerð ógild í einhverju kjördæmi, utankjörstaðaratkvæði, vegna þess að stimpil hafi vantað aftan á vegna þess að hvergi í kosningalögum er þess krafist að stimpill sé aftan á umslögum. Það er nægjanlegt að hann sé á fylgiblaðinu en það er sannarlega rétt að gera atkvæðið ógilt ef undirritun kjósanda eða fulltrúa sýslumanns er ekki á fylgiblaðinu. Annað getur ekki gert þann seðil ógildan nema þá að skilað sé auðu eða skrifaðar einhverjar sögur eða eitthvað annað á kjörseðilinn.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan og er kannski aðalatriðið í því sem ég vildi segja hér, ég tel að það hefði verið mikill myndarbragur á því á fyrsta degi þings ef hv. oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hefðu sagt í upphafi: Hér er deilumál milli aðila. Það er sjálfsagt að kanna þetta, fara þá leið sem hér er lögð til, að það sé kallað eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum þar sem farið er yfir þessi mál og þeir látnir búa til lista um það hvernig farið hefur verið með t.d. atkvæðaseðla sem voru dæmdir ógildir eða hins vegar, eins og ég hef hér verið að geta um, um V á kjörseðlum eða skrifað á bakhlið seðilsins. Ef þetta er svona mismunandi milli kjördæma er full ástæða til að fá það uppgefið frá kjörstjórnum, og Alþingi geti þá skoðað það vegna þess að a.m.k. það verðum við að sjálfsögðu að fá út úr þessari umræðu að svona mistök endurtaki sig ekki. Það er grundvallaratriðið. Og það er auðvitað grundvallaratriði að þetta verði gert hér og nú og ég ítreka það sem mér finnst mikill myndarbragur á að hér leggja fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, fulltrúar minni hlutans, til sáttaleið sem mér finnst hálfpartinn hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafa verið að hártoga og gera lítið úr. Mér finnst það miður og hvet til þess, herra forseti, að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, segi bara: Við skulum taka þetta mál sem hér hefur sett þennan ljóta blett á þingsetningardaginn, skoðum það og könnum það og við skulum hefja það yfir allan vafa að þetta geti einhverju breytt um úrslit kosninganna. A.m.k. verður það að vera þannig að við lærum af þessu og ég ítreka þær spurningar sem hv. þm. Helgi Hjörvar lagði fyrir hæstv. dómsmrh., ég vil taka undir þær og hvetja til þess að hæstv. dóms- og kirkjumrh. nýskipaður segi álit sitt á þeirri umræðu og því sem hér hefur legið fyrir og hvort ekki væri ástæða til þess að skoða þetta mál frekar.