Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 20:29:40 (33)

2003-05-26 20:29:40# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[20:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég óskaði eftir viðveru hæstv. dómsmrh. eða taldi a.m.k. ástæðu til að honum yrði gert viðvart um það, skyldi það hafa farið fram hjá hæstv. ráðherra, að hér færi fram mikil umræða um framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí sl. og ýmis álitamál sem þeirri framkvæmd tengjast, auk þess sem Alþingi hefur í höndunum tiltekin ákvörðunaratriði sem varða lögmæti kosningarinnar sjálfrar og er í höndum Alþingis sjálfs að afgreiða. Ég var ekki að óska eftir viðveru hæstv. dómsmrh. --- bara til að róa hæstv. forseta --- vegna þess að ég væri þeirrar trúar að hæstv. dómsmrh. hefði sem þingmaður einhverjar skyldur umfram aðra þingmenn eða hans álit skipti meira máli en annarra þingmanna þegar kemur að því að fjalla um lögmæti kjörbréfanna samkvæmt ákvæðum þingskapa. Þar er mér alveg ljóst að hv. þm. Björn Bjarnason, 4. þm. Reykv. n., sem það mun heita nú, er sem hver annar af okkur 63 sem hér höfum atkvæðisrétt. Hitt er ljóst, eða var a.m.k. síðast þegar ég vissi, að hæstv. dómsmrh. er dómsmrh. Er það ekki alveg á hreinu? Og hann er þar af leiðandi handhafi framkvæmdarvalds og það hlýtur að vera dómsmrh. á hverjum tíma að svara fyrir um það hvernig framkvæmdarvaldið leysir verkefni sín af hendi.

[20:30]

Það er nú einu sinni svo að í landinu situr, eða á að heita samkvæmt stjórnskipun, þingbundin ríkisstjórn sem á að svara fyrir gerðir sínar gagnvart Alþingi. Alþingi hefur eftirlitsskyldum að gegna varðandi það hvernig með þá hluti er farið af hálfu handhafa framkvæmdarvaldsins.

Það er algerlega ljóst, finnst mér, að sú umræða sem fram hefur farið í dag og fjöldamargt sem komið hefur fram gefur ærið tilefni til að hæstv. dómsmrh. og reyndar einnig hæstv. utanrrh. fari rækilega yfir það í ráðuneytum sínum hvernig hér hefur til tekist. Ég hvet þessa hæstv. ráðherra, sem svo vel vill til að báðir hlýða á mál mitt, til að taka þessi orð alvarlega. Það er miklu betra fyrir hæstv. ráðherra sjálfa að hafa að eigin frumkvæði knúið á um að farið væri yfir þessi mál fremur en að menn verði að knýja það fram með öðrum hætti. Til þess eru auðvitað færar leiðir eins og kunnugt er.

Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. hefur komið hér til umræðunnar. Ég hvet hann til þess að fara yfir hana og lesa, hafi hann ekki hlýtt á hana alla í dag. Sömuleiðis hvet ég hæstv. utanrrh. til að fara yfir þá þætti sem að utanrrn. og utanríkisþjónustunni snúa í þessum efnum.

Ég vil beina því til hæstv. ráðherra --- ég geri svo sem ekki kröfur um að þeir svari hér spurningum lítt undirbúið um þessi vandasömu mál --- hvort þess megi vænta, burt séð frá lyktum málsins hér og nú sem við ræðum eða deilum um í dag, um það hvort samþykkja skuli tillögu minni hluta kjörbréfanefndar eða ekki og loka málinu hér, að þeir í ráðuneytum sínum eða dómsmrn. með upplýsingum eða á grundvelli upplýsinga og aðstoðar frá utanrrn. setji saman rækilega skýrslu eða greinargerð um framkvæmd kosninganna þar sem öll þau álitamál sem hér hafa verið tíunduð og örugglega fjöldamörg önnur, sem munu koma fram í dagsljósið eigi menn kost á því að vekja athygli á ýmsum hlutum, þar sem farið verði rækilega yfir þetta og dregnir af því lærdómar og eftir atvikum jafnvel lagðar til úrbætur, annars vegar á framkvæmdinni og hins vegar á lögunum sjálfum, sem yrði þá verkefni Alþingis að breyta.

Ég tel, herra forseti, að tillaga fulltrúa minni hlutans í kjörbréfanefnd sé vel ígrunduð og rökstudd. Það er alveg ótvírætt að valdið liggur hjá Alþingi. Ég vil ganga lengra og segja að skyldan liggur hjá Alþingi, að gera það sem í þess valdi stendur til að eyða óvissu um lögmæti kosninga og niðurstöðu þeirra. Það er engin leið að lesa ákvæði stjórnarskrárinnar, kosningalaga og þingskapalaga öðruvísi en þannig að þar sé ekki bara vald heldur líka skylda. Það er treyst á að Alþingi sjálft sjái til að óvissu sé eytt eftir því sem kostur er og þá tekið á vafaatriðum. Það getur gengið svo langt, eins og ótvírætt má sjá með lestri 5. gr. þingskapa, að Alþingi ákveði að ógilda kosningu og láta hana fara fram að nýju.

Ef þvílíkir meinbugir eru á framkvæmdinni eða svo mikil óvissa ríkir um að rétt niðurstaða hafi fengist er ljóst að sú skylda hvílir á herðum Alþingis að meta hvort kjósa skuli aftur. Það er ekki eins og það væri heimsendir eða það væri í fyrsta skipti í mannskynssögunni. Hefur það ekki gerst aftur og aftur að menn hafa orðið að endurtaka kosningu, t.d. í sveitarstjórnum, nú síðast í Borgarnesi? Félmrh. sem er æðsti dómari í þeim efnum úrskurðaði þá að þeir skyldu kjósa aftur í Borgarnesi, við litla hrifningu margra þar á bæ. En það var gert. Lýðræðið kostar sitt en það verður að fá að hafa sinn gang.

Þess vegna held ég að málsvörn meiri hlutans --- þó að ég virði að vísu dugnað hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar gagnvart því að standa hér aleinn, meira og minna berskjaldaður rökum í málsvörninni fyrir meiri hlutann --- sé ekki sterk andspænis þeirri miklu ábyrgð og þeim ríku skyldum sem Alþingi hlýtur að hafa á herðum sínum við þessar aðstæður.

Herra forseti. Það er alveg óumdeilanlegt að það hlýtur að vera a.m.k. eitt sem við þingmenn eigum öll sameiginlegt við þessar aðstæður því það er í þágu okkar allra að eyða óvissu ef það er hægt. Það er engum til gagns, sérstaklega ekki meiri hlutanum, að loka þessu á feysknum forsendum þannig að menn verði með hálfgert óbragð í munninum gagnvart því að þeir hafi ekki sinnt skyldum sínum og vandað sig við svona aðstæður.

Ég leyfi mér því að hvetja meiri hlutann, í ljósi þess að það hallar að kveldi bráðum, til að sofa á þessu í nótt. Það mun ekki eiga að ganga til atkvæða hér fyrr en á morgun. Ég hvet meiri hlutann til að sofa á þessu í nótt og velta fyrir sér hvort það sé ekki einmitt meiri hlutanum fyrir bestu að komast að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að samþykkja tillögu minni hlutans. Það yrði enginn héraðsbrestur þó að þingið gerði hlé á störfum sínum í nokkra daga.

Reyndar hefur þingið ekki hafið störf í formlegum skilningi og getur það ekki fyrr en kjörbréfin hafa verið afgreidd. Það er alls óvíst að það þyrfti að gera hlé nema fram undir lok vikunnar. Það má nota þann tíma vel. Þeir sem ekki hafa annað að gera geta spókað sig úti í góða veðrinu. Hæstv. forsrh. getur samið stefnuræðuna, sem hann hefur ekki gert enn. Við hittumst svo hér aftur öðru hvorum megin við næstu helgi til að ljúka þessu með sómasamlegum hætti, herra forseti.