Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 20:42:11 (38)

2003-05-26 20:42:11# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, KLM
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[20:42]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég kem upp til að ítreka þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmrh. og þær spurningar sem hv. þm. Helgi Hjörvar lagði einnig fram. Menn verða kannski bara að sætta sig við þögn hæstv. dómsmrh. Við höfum bara notið þess þá að sjá hann í sæti sínu frá því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óskaði eftir nærveru hans í fundarsal.

En óneitanlega hafa verið lagðar fram hér nokkrar spurningar til hæstv. dómsmrh. Hér hafa verið ítrekaðar óskir eftir svörum og áliti hans á þeirri umræðu og því sem hér hefur átt sér stað, um það hvort íslenska kerfið, dómsmálaráðuneytið og aðrir sem eiga að undirbúa og fara með framkvæmd kosninga, hafi eitthvað lært, séð einhverja vankanta í kosningunum við framkvæmd og talningu, úrskurði um atkvæði í alþingiskosningunum 10. maí sl. Þetta er ákaflega mikilvægt, herra forseti, að heyra nýskipaðan dóms- og kirkjumálaráðherra fjalla um þetta, æðsta yfirmann dómsmála á landinu. Eða verða skilaboðin þögn? Það væri þá svo sem eftir öðru.

Herra forseti. Við höfum rætt hérna svolítið um tæknina og hv. þm. Ögmundur Jónasson orðaði það svo ágætlega að við lifðum á tækniöld. Hér eru skilaboð, gögn og fleira send með leifturhraða, þess vegna héðan og í nýja sendiráðið í Japan á tveimur sekúndum eða einni sekúndu. Það er þannig með tæknina hér á Íslandi líka að kjósendur fylgjast með þeirri umræðu sem á sér stað á Íslandi á hinu háa Alþingi í dag í gegnum netið. Það eru kjósendur sem geta sent SMS-skilaboð til þingmanna til að minna þá á eitt tiltekið atriði varðandi deilumál í kaupstað einum við bæjarstjórnarkosningar þar sem Sjálfstfl. óskaði daginn eftir eftir endurtalningu atkvæða og kjörstjórn varð við þeirri ósk. Úrslit kosninganna sem sagt, þegar búið var að telja um nóttina, voru þau að Sjálfstfl. hafði fengið þrjá fulltrúa og hinn gamli góði, virðulegi Alþfl. hafði fengið tvo en annar fulltrúi þess flokks var aðeins inni á einum fjórða úr atkvæði.

[20:45]

Þetta fannst sjálfstæðismönnum í þessu viðkomandi byggðarlagi ekki nógu gott og vildu freista þess að skoða hvort ekki lægi einhvers staðar fiskur undir steini, ef svo má að orði komast, hvort ekki væri einhvers staðar atkvæðaseðill sem kjörstjórn hefði yfirsést. Allur sá mikli hópur sem þar sat inni og var að telja, fulltrúar allra flokka, var ágætasta fólk. Jú, það var að sjálfsögðu orðið við ósk Sjálfstfl. um endurtalningu atkvæða. Sjálfsagt mál, partur af lýðræðinu. Sjálfsagt að fara í gegnum það hvort munurinn væri virkilega svona lítill. Og menn hittust daginn eftir og opnuðu hin innsigluðu kjörgögn sem sýslumaður hafði geymt um nóttina og hófust handa við endurtalningu. Og viti menn. Hvað gerðist? Fyrst kom einn atkvæðaseðill úr þeim bunka sem kjörstjórnin hafði flokkað sem auða seðla og inni á lista Sjálfstfl. neðarlega á listanum, ekki uppi þar sem D-ið var, þar sem listabókstafurinn var, þar sem flestallir krossa við, heldur neðarlega á listanum var lítill daufur kross fyrir framan eitt nafn eins frambjóðandans og atkvæðið var að sjálfsögðu gilt. Það var tekið gilt. Og það var haldið áfram að endurskoða hin töldu atkvæði, úrskurðuðu atkvæði kjörstjórnar, og það kom annar atkvæðaseðill úr flokki auðra seðla og þar var líka lítill kross sem einhver hafði krossað framan við nafn eins frambjóðanda og þar með hafði Sjálfstfl. fengið tvö atkvæði í viðbót í þessum bæjarstjórnarkosningum og unnið sinn fjórða mann, fékk fjórða manninn daginn eftir og Alþfl. missti einn vegna þess að þessir tveir atkvæðaseðlar fundust við endurtalningu.

Herra forseti. Nú kann það að vera að sumum þingmönnum finnist þessi dæmisaga kannski ekkert merkileg en mér finnst ágætt að nefna hana hér og segja frá henni vegna þess að við endurtalningu kom þetta í ljós og lýðræðið sigraði, ef svo má að orði komast. Það var endurtalið eftir tvísýnar kosningar. Niðurstaðan varð þessi og allir sættu sig við hana.

Ég er aðeins að spekúlera í því, herra forseti, hvað gerst hefði ef menn hefðu jafnvel bara neitað að viðurkenna þetta eftir endurtalningu eða neitað talningu og svo hefðu menn kannski skoðað þessi gögn einhvern tíma seinna vegna þess að þetta fór svona. Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt, herra forseti, að taka þetta dæmi málinu til stuðnings. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, spurningar til dóms- og kirkjumrh. og ítreka áskorun mína til oddvita ríkisstjórnarflokkanna að sofa kannski vel á þessu í nótt, mæta hér galvaskir til þings á morgun og taka þátt í að samþykkja þá tillögu sem minni hlutinn hefur lagt fram og þing verði svo kallað saman þegar þessar skýrslur eru komnar og farið yfir þetta mál. Ólíkt yrði meiri bragur á því og mundi breyta þeirri leiðindaumræðu sem hér hefur verið í dag um framkvæmd kosninga, sem er umræða sem enginn vildi óska sér að þurfa að taka þátt í. Ef oddvitar ríkisstjórnarflokkanna beittu sér fyrir þessum atriðum hygg ég að menn ynnu marga punkta að loknum kosningum og gætu brosað breitt eftir það.