Rannsókn kjörbréfa

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 13:40:42 (46)

2003-05-27 13:40:42# 129. lþ. 1.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 129. lþ.

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Tillaga minni hluta kjörbréfanefndar um að Alþingi láti fara fram rannsókn í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og laga um þingsköp Alþingis er vel rökstudd. Hún er vel ígrunduð og hún er sanngjörn og það kom rækilega fram við umræðurnar í gær að ærin efni eru til þess að fara ofan í saumana á fjölmörgum atriðum sem betur hefðu mátt fara við framkvæmd þessara kosninga. Þegar svo við bætist að það er jafnmjótt á mununum og raun ber vitni þá verður vandséð hvers vegna menn ætla að leggjast gegn því að Alþingi axli þá ábyrgð og sinni þeirri skyldu sinni að reyna að eyða óvissu um lögmæti kosninga.

Það liggur að vísu fyrir að ríkisstjórninni er greinilega mikið í mun að ljúka þessu þinghaldi og koma þinginu heim og flýtir sér svo við það að það má ekki einu sinni vera að því að semja stefnuræðu til að ræða hér með hefðbundnum hætti. En það verður mönnum til lítils sóma að kasta þannig til höndunum við ábyrgðarstörf af því tagi að reyna að eyða óvissu um lögmæti kosninga. Þess vegna trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að þessi tillaga verði ekki samþykkt, herra forseti. Ég segi já.