Rannsókn kjörbréfa

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 13:45:28 (49)

2003-05-27 13:45:28# 129. lþ. 1.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 129. lþ.

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég hef ekkert við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar að athuga en ég ætla að gera grein fyrir því af hverju við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum styðja þessa tillögu meiri hluta kjörbréfanefndar að fallinni tillögu minni hlutans sem við að sjálfsögðu hörmum, að ekki var fallist á þá rannsókn á framkvæmd og lögmæti kosningarinnar sem þar var lögð til. Þar með eru tæmd þau úrræði sem þingmenn hafa til þess að rannsaka í tengslum við afgreiðslu kjörbréfa lögmæti kosningarinnar og er ekkert annað eftir en greiða atkvæði um kjörbréfin sem slík og við styðjum þau. Þar með er þó alls ekki sagt að þessu máli sé lokið og ég hef enga trú á öðru en þeir ágallar sem komu fram við framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí sl. eigi eftir að hafa það í för með sér að þessi mál verði könnuð, rannsökuð og væntanlega lögum breytt og ýmsar ráðstafanir gerðar til að betrumbæta framkvæmd alþingiskosninga bæði innan lands og erlendis. Ég trúi því ekki að menn ætli að sætta sig við fingurbrjóta af því tagi sem fjölmargir voru hér til umræðu í gær. Á því verður að taka, herra forseti.