Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:03:38 (70)

2003-05-27 21:03:38# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ISG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:03]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Kosningunum er lokið og úrslit ráðin. Þjóðin hefur sagt sitt og veitt þingmönnum lýðræðislegt umboð til að fara með stjórn landsmála á næsta kjörtímabili. Nú er það Alþingis að ráða fram úr þeim fjölmörgu málum sem krefjast úrlausnar á komandi árum því þjóðin kaus sér þingmenn en hvorki ráðherra né ríkisstjórn. Valdið er nú hjá Alþingi. Þessu valdi fylgir mikil ábyrgð sem þingmenn allir verða að axla, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu.

Eftir góðan kosningasigur mætir Samfylkingin til þings fjölmenn, öflug og endurnýjuð, staðráðin í að láta um sig muna í þing- og stjórnmálastarfi á því kjörtímabili sem nú fer í hönd. Við munum ótrauð takast á við verkefni dagsins í öflugum flokki sem byggir á manngildishugsjón hinnar sígildu jafnaðarstefnu og jafnréttishugmyndum nýrra tíma. Þingmenn gömlu valdaflokkanna á Alþingi, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa ákveðið eina ferðina enn að starfa saman á kjörtímabilinu og standa saman að ríkisstjórn. Áhöld eru um hvort þetta var það sem þjóðin vildi, hvort þetta voru skilaboðin sem hún sendi þingmönnum. En meiri hluti þeirra hefur kosið að túlka þau á þennan veg. Það sem meira er, þeir hafa kosið að túlka þau á þann veg að þjóðin vilji litlar sem engar breytingar. Þetta endurspeglast í þeirri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem við ræðum hér í kvöld.

Stefnuyfirlýsingin er almennt orðuð viljayfirlýsing og flestir sem um hana hafa fjallað eru sammála um að hún sé fáorð, tilþrifalítil og þar sé lítið um nýjar hugmyndir sem hönd sé á festandi.

Forsrh. reynir hér í kvöld að leggja það út á betri veg og segir að þetta sé til marks um það traust sem ríki í stjórnarsamstarfinu, um það sé óþarfi að hafa mörg orð. Í þessari röksemdafærslu gleymir hann því grundvallaratriði lýðræðisins að valdið er komið frá kjósendum. Hann gleymir að stjórnarsáttmálinn snýr ekki bara að flokkunum sem hann gera heldur að fólkinu í landinu. Stjórnin á að standa fólkinu skil á því hvernig hún hyggst fara með það vald sem henni hefur verið fengið. Hver eru markmiðin? Hvernig getur fólkið og fulltrúar þess á þingi fylgst með því hvort stjórnin er að ná settu marki eða ekki?

Í stjórnarsáttmálanum endurspeglast sú frumstæða lýðræðishugmynd stjórnmálaflokkanna og þeirra sem sitja í stjórn að þeir hafi fengið vald og umboð til að ráða, þeir geti því haft sína hentisemi. Það sem verra er, þeir eru hættir að vanda sig. Glaðbeittir skipta þeir fengnum, hrófla upp stjórnarsáttmála, ríkisstjórn, stefnuræðu og þingstörfum í skjóli meirihlutavalds næstu fjögur árin --- láta síðan kylfu ráða kasti.

Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að ríkisstjórnin sem ætlar að minnast þess þann 1. febrúar á næsta ári að 100 ár eru liðin frá því Íslendingar fengu heimastjórn sé komin nokkuð langt frá þeim anda sem þá sveif yfir vötnum. Í ræðu sem Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra heimastjórnar, hélt 1. febrúar 1904 sagðist hann hvorki hafa aldur, lærdóm né pólitíska yfirburði til að ganga að því sem gefnu að menn sættu sig við valið á honum sem ráðherra. Hann orðaði ábyrgð sína með þessum hætti:

,,Og vissulega mun ég af alhuga kappkosta að verða ekki til þess að spilla friðnum, heldur mun ég leggja alla stund á friðsamlega vinnu og reyna eftir megni að stuðla að því að allir góðir kraftar leggist á eitt um að hagnýta sem best stjórnarbót þá sem við höfum fengið.``

Hann lagði síðan áherslu á að framkvæma vilja þjóðarinnar og sagði, með leyfi forseta:

,,Því takmarkið, sem vér verðum að keppa að, það er í einu orði að gera landið sem lífvænlegast með því að hlúa að öllu því sem gerir fýsilegra að vera hér ...``

Þessi orð eiga ekkert síður við í dag en fyrir 100 árum. Allir góðir kraftar þurfa að sameinast í því að renna styrkum stoðum undir góð lífskjör í landinu. Og rétt eins og þá eru það efnahagsmálin og ríkisfjármálin sem eru eitt brýnasta úrlausnarefnið. En stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er fáorð um þær leiðir sem þar á að fara og hvernig góðir kraftar geti sameinast í ábyrgri hagstjórn.

Í kosningunum lagði Samfylkingin áherslu á að skapa þyrfti góða samstöðu um áætlun í fjármálum hins opinbera á kjörtímabilinu. Nú er eftir þessu kallað hjá aðilum vinnumarkaðarins og Seðlabankanum en engin slík áætlun er í stjórnarsáttmálanum. Engin skýr stefna hefur verið mörkuð um hvernig á að takast á við þann vanda sem við blasir. Samt eru alvarlegar blikur á lofti.

Í nýútkomnu hefti peningamála sem gefið er út af Seðlabankanum eru höfð uppi mikil varnaðarorð. Varar bankinn við því að slakað sé á í opinberum fjármálum og segir fullum fetum að skattalækkanir á allra næstu árum muni krefjast niðurskurðar á útgjöldum. Þetta á ekki að koma framsóknarmönnum á óvart sem sögðu í kosningabaráttunni að skattalækkunartillögur Sjálfstfl. væru annað tveggja, ógn við stöðugleikann eða ávísun á niðurskurð í velferðarkerfinu. En nú láta þeir eins og ekkert sé. Þeim er vart eins rótt og þeir láta nema fyrir liggi að loðið orðalag um virðisaukaskattinn í stjórnarsáttmálanum sé í raun til vitnis um að Sjálfstfl. ætli að svíkja þau loforð sem hann gaf á landsfundi sínum og formaður flokksins ítrekaði kvöldið fyrir kjördag þegar hann sagði:

,,Þetta eru loforð og ég tek loforð mjög hátíðlega. Spursmálið er ekki hverju er lofað, heldur hverjir lofa. Ég legg þetta loforð á borð með mér.``

Aukinn hagvöxtur mun vissulega skila umtalsverðum fjármunum í ríkissjóð á kjörtímabilinu og skapa svigrúm til þess að auka lífsgæðin í íslensku samfélagi. Verði þetta svigrún einvörðungu nýtt til þess að lækka skatta mun það eflaust auka kaupmátt margra. En það mun ekki stuðla að réttlæti eða auknum lífsgæðum. Jafnvel þvert á móti.

Á ýmsum sviðum, svo sem í menntun, þarf að auka fjárframlög hins opinbera. En til þess að ná árangri í opinberum rekstri þarf ekki alltaf aukna fjármuni. Skipulagsleysi, skortur á framtíðarsýn og áætlunum til langs tíma veldur því oftar en ekki að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtast ekki sem skyldi. Þetta birtist okkur m.a. í heilbrigðismálunum. Mikilvægt er að skilgreina rétt einstaklinga til þjónustu hins opinbera og taka mið af þörfum þeirra en ekki þörfum stofnana. Stjórnvöld fara með skattfé fólksins. Það á að gera kröfu um góða þjónustu. Það eru stjórnmálamennirnir sem bera ábyrgð á því að hún sé veitt, ekki embættismennirnir. Í stjórnarsáttmálanum er ekki orð um þennan rétt fólksins til þjónustu.

Góðir tilheyrendur. Þrátt fyrir ýmsa annmarka á íslensku samfélagi höfum við allt sem þarf til að verða í fremstu röð meðal þjóða, gjöfula náttúru, rótgróna lýðræðishefð, athafnaþrá, útsjónarsemi og sterka réttlætisvitund. Við eigum að leggja rækt við þann styrk sem í þessu felst og móta hér samfélag sem miðar að því að allir einstaklingar fái notið sín, tækifæri gefist fyrir alla og allir eigi sér einhvern samastað í okkar sameiginlegu tilveru. Þetta er sameiginleg ábyrgð okkar allra. Samfylkingin mun ekki láta sitt eftir liggja. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.