Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:29:43 (74)

2003-05-27 21:29:43# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, EKG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:29]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Stjórnarandstaðan sem nú situr kemur eins þverklofin til þessa þings og hún var þegar við kvöddumst um miðjan mars sl. Þá skildust stjórnarandstæðingar með heitingum við eldhúsdagsumræðurnar og okkur sem þá sátum á þingi og raunar landsmönnum öllum sem áttu þess kost að hlýða á umræðurnar var það afskaplega vel ljóst að því fór alveg víðs fjarri að um pólitíska samstöðu þessara stjórnmálaafla gæti verið að ræða. ,,Í góðsemi vegur þar hver annan``, eins og eitt sinn var ort. Samt sem áður töluðu stjórnarandstæðingar þannig í kosningabaráttunni að næðu þeir tilskildum meiri hluta væri þeim ekkert að vanbúnaði að taka við. Og vissulega hefði það verið rökrétt að stjórnarandstaða sem felldi ríkisstjórn settist að völdum. En okkur er öllum ljóst hvernig þeir búskaparhættir hefðu litið út. Það hefði verið ógæfuleg sambúð.

[21:30]

Við sjáum hvernig stjórnarandstaðan birtist okkur hérna í kvöld, alveg jafnsundurþykk og að áliðnum vetri. Það hefur að þessu leyti ekkert breyst. Jafnvel við nefndakjör, eins og nefnt var hér áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, treysta þeir sér ekki til að standa saman. Og ætli flokkar sem geta ekki einu sinni komið sér saman um kosningar í nefndir og ráð á vegum Alþingis séu nú færir um það að takast sameiginlega á við hin stóru mál sem ríkisstjórnir á hverjum tíma þurfa að glíma við? Eða dettur einhverjum í hug að flokkar sem rífast og skammast hver út í annan vegna einfaldra nefndakosninga og eyða til þess síðan ræðutíma sínum hér í umræðunum um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, séu til stórræðanna? Auðvitað ekki. (Gripið fram í.)

Það var að einu leyti, virðulegi forseti, ágætur samhljómur samt sem áður í málflutningi stjórnarandstöðunnar, sem verður strax svo viðskotaill þegar orðum er beint að henni, og það var þegar þeir fóru með gömlu klisjurnar sínar um að það væri ekkert nýtt að finna í þessum stjórnarsáttmála. Ég er búinn að sitja á Alþingi í nokkurn tíma og það er alltaf þannig í hvert skipti sem stjórnarandstæðingar tala um stjórnarsáttmálana, alltaf það sama, 1995 og 1999, og samt sem áður er það svo að undir forustu þessara ríkisstjórna hafa orðið stórkostlegar breytingar í landinu. Ætli það endurspegli nú ekki að þau stefnumið hafi haft áhrif sem við höfum verið að fylgja eftir í þessum stefnuskrám ríkisstjórnarinnar?

Það er auðvitað svo að stjórnarsáttmálinn er metnaðarfullur í mörgum liðum, m.a. í skattamálum eins og hér hefur komið fram. Það sem vakti hins vegar athygli mína var sérstakt framlag talsmanns Samfylkingarinnar í þeim efnum til að reyna að gera lítið úr því og það var ómögulegt að skilja talsmanninn öðruvísi en svo að verið væri að tala gegn skattalækkunum almennt í landinu.

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsmálin urðu eitt af hinum stóru málum nýliðinnar kosningabaráttu. Það var mikilvægt vegna þess að þar með var kastljósi umræðunnar beint betur að þessum mikilvæga málaflokki og tækifæri gafst til þess að ræða af meira kappi um margt af því sem eingöngu hefur verið tæpt á í knappri umræðunni. Það er t.d. alveg ljóst að umræðurnar um fyrningarleiðir í sjávarútvegi sýndu ljóslega fram á hinar stórkostlegu veilur sem eru í málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Þegar umræðan fór að skila sér til almennings í landinu brugðu jafnvel helstu talsmenn þessarar kenningar á það ráð að draga í land, vegna þess að þeir gátu ekki lengur neitað því að stefnumörkun þeirra gæti ekki haft annað en neikvæðar afleiðingar í för með sér þegar þeir sem ætluðu að fyrna veiðiréttinn á 10 árum, ákváðu skyndilega í miðjum klíðum að þessi fyrningartími gæti allt eins verið 20 ár eða 25 ár eða jafnvel eitthvað lengri. Býður einhver betur? Þá voru þeir í raun og veru að viðurkenna, sem öllum hafði verið ljóst fyrir löngu síðan, að fyrningarleiðin mundi hafa stóralvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir byggðirnar og starfandi útgerðir. Ekki síst einstaklingsútgerðirnar og helst af öllu nýliðana. Þetta viðurkenna talsmenn fyrningarleiðarinnar í raun, enda má ekki gleyma því að fyrningarleið Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir byggðakvótaúthlutun í gegnum Byggðastofnun af því að allir vita að fyrningarleið getur haft svo alvarlegar afleiðingar fyrir byggðirnar.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er með margvíslegum hætti tekist á við það þýðingarmikla verkefni að styrkja forsendur byggðanna og treysta betur veiðirétt þeirra. Þær hugmyndir sem uppi eru um línuívilnun eru tvímælalaust liður í því. Þetta er ívilnun til þeirra sem nýta sínar eigin aflaheimildir og skapa byggðum landsins sjálfstæðan sóknarrétt sem ekki verður að verðmætum nema því aðeins að útvegsmenn og sjómenn nýti hann sjálfir.

Þýðingarmest að mínu mati er þó það ákvæði í stjórnarsáttmálanum að þessu leyti sem lýtur að líffræðilegri fiskveiðistjórn og er verkefni sem hæstv. sjútvrh. hratt úr vör á síðasta vetri, m.a. í framhaldi af nál. meiri hluta sjútvn. Alþingis. Þar er tekist á við gríðarlegt viðfangsefni sem getur, ef vel tekst til, leitt til aukins jafnræðis í sjávarútveginum, haft í för með sér skynsamlegri nýtingu veiðistofna með tilliti til aldurs og stærðardreifingar þeirra og stuðlað að minni sóun við auðlindanýtinguna.

Sú efnahagsstefna, virðulegi forseti, sem við höfum fylgt á undanförnum árum hefur leitt til aukins hagvaxtar, bættra lífskjara og skapað okkur möguleika á að hrinda í framkvæmd enn þá frekari skattalækkun. Ef ekki hefði tekist svo vel til við að styrkja stoðir efnahagslífsins sem raun ber vitni á undanförnum árum, væru slíkir kostir ekki til staðar. Jafnframt þessu hafa forsendur velferðarkerfisins verið styrktar. Þannig erum við í rauninni að ná fram tvenns konar markmiðum, að bæta velferðarþjónustuna og gera hana skilvirkari og jafnframt að auka ráðstöfunartekjur almennings í landinu.

Nú er fram undan tími enn meiri uppsveiflu. Sumir tala um það sem vandamál. En er það virkilega svo að aukinn hagvöxtur, betri tekjur, bætt lífskjör, séu vandamál? Vitaskuld ekki. Þetta er árangur. Jákvæður árangur sem er afrakstur þeirrar pólitísku forustu sem ríkisstjórnin hefur haft um þessi mál á undanförnum árum. En auðvitað reynir á hagstjórnina. Þessar aðstæður krefjast aðhalds í ríkisfjármálum og í búskap sveitarfélaganna. Og við slíkar aðstæður er skynsamlegt, eins og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum, að hvetja til aukins frjáls lífeyrissparnaðar. Gefa almenningi þannig færi á því að auka sparnað sinn og leggja fyrir fjármuni til efri áranna.

Síðast en ekki síst ber Seðlabankanum, sem nú hefur fengið aukið sjálfstæði og vel skilgreint en afar þýðingarmikið hlutverk, að grípa inn í og koma í veg fyrir að aukið gjaldeyrisinnstreymi leiði til gengishækkunar. Til þess hafa bankanum verið fengin nægilega mikil völd og öflug tæki og til þess verður að ætlast af honum að hann beiti þeim tækjum undanbragðalaust til þess að tryggja jafnvægi í utanríkisviðskiptum og trausta stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina.

Góðir landsmenn. Fram undan er tími verkefna, vinna sem miðar að því að bæta lífskjör, styrkja velferðarkerfið, treysta búsetuna í byggðum landsins og annað það sem til framfara horfir. Þá skiptir miklu máli að hafa traustan efnahagslegan grunn til að byggja á til framtíðar. --- Takk fyrir.