Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:37:03 (75)

2003-05-27 21:37:03# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KJúl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:37]

Katrín Júlíusdóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu stjórnarflokkarnir langa loforðalista fyrir þjóðina. Þau loforð bentu frekar til þess að þar væru á ferð stjórnarandstöðuflokkar en ekki að þeir hefðu haldið um stjórnartaumana í átta ár og þannig haft næg tækifæri til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Enn sitja þessir sömu flokkar við völd og hvað stendur eftir af loforðaflaumnum? Niðurstaðan birtist í stjórnarsáttmála sem er fullur af fyrirvörum og almennum yfirlýsingum en algjörlega laus við vísbendingar um að efndir á hástemmdum loforðum séu í nánd. Ekkert er tímasett nema stólaskiptin innan ríkisstjórnarinnar. Það eitt er vitað hvenær núverandi forsrh. verður fyrrverandi forsrh. og hvenær núverandi ráðherrar verða sendir til útlanda eða í óvissuferð innan lands. Ekkert er sagt um raunverulegar efndir á því sem þjóðinni var lofað fyrir kosningar.

Bætt lífskjör barnafólks er eitt stærsta pólitíska verkefni okkar á komandi kjörtímabili. Barnafjölskyldur í lág- og millitekjuhópum hafa orðið harkalega fyrir barðinu á aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda á undanförnum árum. Hærri skattbyrði, lægri barnabætur, þung greiðslubyrði námslána, hátt verð á nauðsynjavörum, háir vextir og verðtrygging ofan á vextina eru þær aðstæður sem við búum ungu fólki í dag. Og þetta eru helstu ástæður fyrir því hversu erfiðlega því gengur að koma undir sig fótunum. Þegar greitt hefur verið af öllu er lítið eftir fyrir nauðsynjum fjölskyldunnar og má sáralítið út af bregða. Þannig getur ein ferð til tannlæknis sett fjárhag fjölskyldunnar úr skorðum til lengri tíma. Þessum vanda hefur ekki verið sinnt.

Stefna Samfylkingarinnar endurspeglar skilning á þessum aðstæðum ungra barnafjölskyldna og snýst um að auka lífsgæði og létta byrði af þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref sem fullir þátttakendur í samfélaginu. Til þurfa að koma markvissar aðgerðir þar sem markmið eru skilgreind og þeim fylgt eftir af fullum þunga.

Það vantaði ekki fyrir kosningar að stjórnarflokkarnir væru með fagurgala og gerðu síðbúna yfirbót eftir átta ára aðgerðaleysi í málefnum barnafjölskyldna. Eitt dæmið var loforð Framsfl. um að lækka endurgreiðslubyrði af námslánum. Hvað skyldi verða um efndirnar? Um það segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: ,,Hugað verði að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána.`` Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin ætlar að huga að því að efna kosningaloforð sín.

Herra forseti. Það er í menntakerfinu sem stærstu tækifæri Íslendinga til framfarasóknar liggja. Víðtækar og markvissar fjárfestingar í menntun til samræmis við það sem framsæknustu þjóðir ástunda er eitt af forgangsmálum í íslensku samfélagi. Samfylkingin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um fjárfestingar á öllum stigum menntakerfisins sem miðar að virkjun hugarafls, eflingu hátækni og áherslu á hugvit. Erlendar rannsóknir benda til að á aðeins átta árum gæti áætlun Samfylkingarinnar aukið hagvöxt um hið sama og virkjun við Kárahnjúka og álver á Reyðarfirði.

Góðir Íslendingar. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar þakka kærlega fyrir þann góða stuðning og þann góða þingstyrk sem við jafnaðarmenn fengum í nýafstöðnum kosningum. Við munum ekki bregðast trausti ykkar. --- Góðar stundir.