Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:51:59 (78)

2003-05-27 21:51:59# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Góðir tilheyrendur. Þetta er ríkisstjórnin sem segir: Áhersla verður lögð á samheldni þjóðarinnar.

Já, það var ekki vanþörf á eftir að ríkisstjórnin, sem setið hefur sl. átta ár og er nánast enn öll sem fyrr, hefur orðið þess valdandi með stefnu sinni á liðnum árum að kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar, þeirra sem allt hafa fengið til sín og orðið ofurríkir og hinna sem tekinn var frá atvinnurétturinn með sölu úr byggð. Eignir þessa sama fólks eru síðan orðnar verðlitlar og þar með ævisparnaðurinn að engu ger.

Þetta hafa lagasetningar stjórnarliða á undanförnum árum leitt af sér. Hverja á svo að skamma, þá sem seldu og keyptu eða þá sem gerðu það löglegt að selja atvinnurétt fólksins, þ.e. alþingismenn ríkisstjórnarinnar?

Það sem gerst hefur birtist skömmu eftir kosningar í fréttapistli Fréttablaðsins. Þetta er afraksturinn af því sem gerðist á Vestfjörðum varðandi kvótann þar sem aflinn hefur farið af svæðinu, og fólki hefur einnig fækkað.

Góðir tilheyrendur. Því er ekki að leyna að við í Frjálslynda flokknum erum ósátt við að eigi skyldi vera endurtalið úr kosningunum og alveg sérstaklega að vafa- og utankjörfundaratkvæði fengjust ekki skoðuð. Eitt er ljóst, að niðurstaðan í dag er ekki lok þessa máls. Kosningalöggjöfina og framkvæmd kosninganna verður að endurskoða. Ég vil samt láta það skýrt í ljós að ég er mjög ánægður með mína liðsmenn. Þessir menn eru víkingar til verka og hafa sannfæringu um réttan málstað, eins og þið heyrðuð, og þeir hafa margt til mála að leggja. Þingflokkur Frjálslynda flokksins, frambjóðendur og flokksmenn hans færa landsmönnum hugheilar þakkir fyrir stuðninginn við okkar unga flokk í nýafstöðnum kosningum.

Kosningabaráttan var hörð og tók á, ekki síst á þann tiltölulega fámenna hóp en harða kjarna sem mest mæddi á. Við náðum góðum árangri og við þökkum ykkur fyrir, kjósendur. Það er ánægjulegt að enn skuli vera hægt að koma skoðunum á framfæri í íslensku þjóðfélagi án þess að vaða í peningum og hafa óheftan aðgang að fjölmiðlum með þeim. Við lofuðum að vinna vel og vinna heiðarlega og við lofum áfram að vera einlæg og ákveðin og segja sannleikann.

Við höfum fulla trú á okkar landi og fulla trú á því að það muni birta til á landi hér þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem nú heldur áfram sínum völdum. Við trúum því að eftir fjögur ár muni valdaferli þessara ríkisstjórnarflokka endanlega verða lokið og það muni vara um nokkuð langan tíma þar á eftir.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við í Frjálslynda flokknum óskum landsmönnum góðs og gæfuríks sumars og vonumst til þess að öll göngum við á guðs vegum um allan bjartan sumartímann. Hittumst svo heil í haust. --- Takk fyrir.