Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:34:02 (3512)

2004-01-28 13:34:02# 130. lþ. 52.1 fundur 265#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ásgeir Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og bóndi í Ásgarði, andaðist 29. desember í Sjúkrahúsi Akraness. Hann var 89 ára að aldri.

Ásgeir Bjarnason var fæddur 6. september 1914 í Ásgarði í Hvammssveit í Dalasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Jensson bóndi og hreppstjóri og Salbjörg Ásgeirsdóttir ljósmóðir og húsmóðir í Ásgarði. Ásgeir lauk héraðsskólaprófi í Reykholti 1934 og búfræðiprófi á Hólum 1937. Eftir það fór hann til framhaldsnáms í Noregi og lauk prófi í búfræðiskóla ríkisins í Sem 1940. Á árunum 1940--1942 var hann starfsmaður við tilraunastöð búnaðarháskólans í Ási í Noregi og síðan við frærannsóknastofnun í nágrenni Stokkhólms. Heim til Íslands kom hann síðla árs 1942 eftir hættuför, krókaleiðir vegna styrjaldar. Árið 1943 hóf hann búskap í Ásgarði og var bóndi þar fjóra áratugi til 1983.

Ásgeiri Bjarnasyni voru falin ýmis trúnaðarstörf. Hann var í hreppsnefnd Hvammshrepps 1945--1950 og 1956--1978, hreppstjóri Hvammshrepps 1956--1984, formaður Búnaðarsambands Dalamanna frá stofnun þess 1947 til 1974 og fulltrúi þess á búnaðarþingi 1950--1986. Hann var fulltrúi á fundum Stéttarsambands bænda 1947--1969 og formaður Búnaðarfélags Íslands 1971--1987. Í alþingiskosningunum 1949 var hann í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Dalasýslu og var kjörinn þingmaður. Hann var þingmaður Dalamanna 1949--1959 og þingmaður Vesturlandskjördæmis 1959--1978, sat á 31 þingi alls. Hann var 2. varaforseti efri deildar Alþingis 1971--1973, forseti efri deildar 1973--1974 og forseti sameinaðs þings 1974--1978. Hann átti sæti í Norðurlandaráði 1954--1956, 1960--1967 og 1974--1978. Hann var endurskoðandi Brunabótafélags Íslands 1950--1994, í tryggingaráði 1963--1974 og í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1965--1968. Margt er hér ótalið af trúnaðarstörfum sem hann gegndi.

Ásgeir Bjarnason var hógvær að eðlisfari, barst aldrei mikið á. Hann var framar öðru ræktunarmaður, góður bóndi, höfðingi heim að sækja og vildi hvers manns vanda leysa. Mannkostir hans duldust ekki þeim sem höfðu af honum kynni. Sýslungar hans völdu hann og hvöttu til forustustarfa út á við. Á Alþingi og í samtökum bænda naut hann trausts og virðingar. Þar studdi hann ýmist eða hafði forgöngu um framfaramál landsbyggðarinnar. Hann bjó að áratuga reynslu við þingstörf þegar hann tók við forsetastörfum á Alþingi, var réttlátur og öruggur stjórnandi funda. Ásgeir Bjarnason var trygglyndur og traustur drengskaparmaður.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Ásgeirs Bjarnasonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]