Þingmennskuafsal Tómasar Inga Olrichs

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:38:23 (3513)

2004-01-28 13:38:23# 130. lþ. 52.95 fundur 258#B þingmennskuafsal Tómasar Inga Olrichs#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Forseti (Halldór Blöndal):

Borist hefur svohljóðandi bréf frá Tómasi Inga Olrich, dags. 30. desember sl.:

,,Það tilkynnist með bréfi þessu að frá og með næstu áramótum afsala ég mér þingmennsku. Ég þakka alþingismönnum og starfsmönnum þingsins gott samstarf og samvinnu þann tíma sem ég hef átt sæti á Alþingi. Um leið og ég árna Alþingi heilla í störfum vænti ég góðs samstarfs við alþingismenn á nýjum starfsvettvangi.

Tómas Ingi Olrich.``

Samkvæmt bréfi þessu verður Arnbjörg Sveinsdóttir 6. þm. Norðaust. Hún hefur áður setið á Alþingi tvö kjörtímabil og er því hagvön hér í þingsölum. Ég býð hana velkomna til starfa.

Við brotthvarf Tómasar Inga Olrichs af þingi færi ég honum þakkir fyrir þau störf sem hann hefur unnið á Alþingi. Hann sat á þingferli sínum í iðnn., menntmn., umhvn., heilbr.- og trn., fjárln. og sérnefnd um stjórnarskrármál tvívegis. Lengst sat hann í utanrmn., þar af formaður hennar 1998--2002 þegar hann tók við ráðherrastörfum. Þá sat hann í Íslandsdeild NATO-þingsins og Íslandsdeild ÖSE-þingsins og var um skeið formaður þeirra.

Persónulega þakka ég Tómasi Inga Olrich vináttu, náið samstarf og langa samfylgd í stjórnmálum og veit að ég mæli fyrir munn allra þingmanna þegar ég þakka honum ánægjuleg kynni og gott samstarf sem skilur eftir góðar minningar. Við njótum starfskrafta hans, reynslu og þekkingar í öðru mikilvægu starfi. Ég óska honum allra heilla á þeim vettvangi.