Úreltar búvélar

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:44:36 (3517)

2004-01-28 13:44:36# 130. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A úreltar búvélar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Alveg er það einstakt að ferðast um landið okkar, fara um blómlegar byggðir og ekki spillir fyrir ef fjallasýn er fögur. Ég er sannfærð um að það er ekkert sem gerir jafnmikið fyrir líkama og sál og að fara um landið. Og það er alveg stórkostlegt þegar maður er að ferðast að sjá hvílíkar breytingar hafa orðið í landinu á síðustu 20--30 árum. Sérstaklega er ég þar að vísa til þess sem hefur verið að gerast í sveitum. Það er alveg til fyrirmyndar hvernig þróast hefur að byggja upp, halda við býlum, breyta umhverfinu og það er oft aðdáunarvert að sjá hús í sveitum, heimreiðir og umhverfi þeirra. Ég vil sérstaklega undirstrika þetta sem mér finnst svo mikils virði þegar ég er á ferð um landið.

Því miður er þetta ekki alls staðar eins. Það er alltaf bakhlið á öllum peningum, líka þessum. Og þannig er að víða á venjulegum bæjum, og ég undirstrika það að þessi tillaga á við venjulega sveitabæi, hér er ekki verið að tala um sérstaka skussa. Á venjulegum bæjum má sjá mjög víða ryðguð úrelt landbúnaðartæki, mörg í túnfæti, í hlaði eða við heimreiðina, já jafnvel mörg á sama bænum. Þetta er mikið lýti, þetta er lýti fyrir býlið og þetta er lýti fyrir landið. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig á þessu standi og ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er afskaplega erfitt fyrir lítið býli að losa sig við þessa tegund af úrgangi. Það er eiginlega hægt að gefa sér að það sé ekki unnt. Venjulegur bóndi hefur ekki bolmagn til að losa sig við þessi tæki og við vitum hve erfitt hefur verið víða í sveitum síðustu ár. Margar umræður hafa farið fram í þessum ræðustól um hve hrakað hefur fjárhag ekki síst fjárbændanna í landinu og það hlýtur að vera þannig að við eigum að velta fyrir okkur hvað unnt sé að gera.

Þess vegna ber ég fram þessar tvær spurningar: Hefur umhverfisráðuneytið kannað hvernig unnt væri að aðstoða bændur við að fjarlægja úreltar búvinnuvélar og önnur landbúnaðartæki sem víða má sjá við tún og bæjarhlöð? Er ástæða til sérstaks hreinsunarátaks í sveitum vegna slíkra úreltra véla og tækja?