Förgun úreltra og ónýtra skipa

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:55:38 (3522)

2004-01-28 13:55:38# 130. lþ. 52.3 fundur 357. mál: #A förgun úreltra og ónýtra skipa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Um áramót 2000--2001 kom í ljós, frá umhverfisnefnd Hafnasambands sveitarfélaga sem hafði þá gengist fyrir könnun á langlegu- og reiðuleysisskipum í höfnum á Íslandi, að á þeim tíma var 161 skip, að brúttóþyngd tæp 37 þús. tonn, ónotað, ónýtt, úrelt og lá í höfnum landsins. Það hlýtur því að vakna upp spurning varðandi allan þann kostnað sem af þessum skipum hlýst, sem taka upp dýr og kostnaðarsöm hafnarmannvirki og legupláss í höfnum auk þess sem viðkomandi hafnir hafa orðið fyrir verulegum útgjöldum vegna þessa. Ekkert hefur verið gert í þessu máli, hvorki af hálfu Hafnasambands sveitarfélaga, hafnanna sjálfra né af hálfu umhvrn. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé eðlilegt að taka þessu máli taki og létta á kostnaði vegna þessara úreltu og óhagkvæmu skipa, vegna þess að það virðist ekki liggja ljóst fyrir hver beri ábyrgð eða hver eigi að sinna því, hver eigi að sjá um að koma þessum skipum úr höfn svo að þau taki ekki dýr viðlegupláss í höfnum landsins.

Þess vegna hef ég lagt fyrir hæstv. umhvrh. svohljóðandi fyrirspurn:

,,Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til förgunar úreltum og ónýtum skipum sem liggja mörg hver í reiðileysi í höfnum landsins?``