Förgun úreltra og ónýtra skipa

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:00:29 (3524)

2004-01-28 14:00:29# 130. lþ. 52.3 fundur 357. mál: #A förgun úreltra og ónýtra skipa# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í þessari umræðu að þetta er heilmikið vandamál. Þetta er mikill kostnaður fyrir hafnirnar og það er alveg ljóst mál að ef fram heldur sem horfir er hættan sú að þetta verði kostnaður sem leggist á útgerðina. Ég hef hins vegar lagt fram frv. um að heimila það að þessi skip verði dregin út á haf og þeim sökkt, og áður en komi til þess verði þau að sjálfsögðu hreinsuð af öllum mengandi efnum. Það er einfaldlega þannig að samkvæmt Ospar-samkomulaginu er gert ráð fyrir því að þetta sé heimilt, út þetta ár.

Því miður ákvað Alþingi hins vegar, að mínu mati fyrir tóm mistök og tóma vitleysu, að gera reglurnar strangari hér á landi. Á sínum tíma, árið 1998, var lagt fram frv. þar sem gert var ráð fyrir því að þessi heimild yrði til staðar út árið 2004, eins og Ospar-samkomulagið gerir ráð fyrir, en í fljótfærni og tómri vitleysu og hugsunarleysi ákváðum við hins vegar að koma í veg fyrir það. Þess vegna er þetta mikla vandamál til staðar. Við eigum að sjálfsögðu að reyna að taka ofan af þessum kúf, taka upp þessa heimild og hafa það þannig, eins og hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum, að við höfum þá heimild út árið að draga skipin á sæ út, sökkva þeim og losa okkur þannig við þennan mikla kúf og þetta vandamál sem hér er um að ræða.