Friðun rjúpu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:22:57 (3534)

2004-01-28 14:22:57# 130. lþ. 52.5 fundur 392. mál: #A friðun rjúpu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Frú forseti. Síðan ég hóf störf á Alþingi hef ég óskað eftir svörum ráðherra við nokkrum spurningum um stjórnsýslu þeirra. Yfirleitt hafa fljótlega borist ágæt svör við þeim spurningum sem ég hef borið upp og ég þakka það. Því miður eru tvær undantekningar á þessu, þ.e. varðandi spurningar sem ég beindi til hæstv. umhvrh. um veiðibann á rjúpu og spurningar sem ég beindi til hæstv. landbrh. um flutning á sláturfé landshorna á milli.

Hæstv. landbrh. gaf mér svar sem var beinlínis rangt. Ekki ætla ég hæstv. landbrh. að hann hafi ætlað sér að svara með þeim hætti --- ég tel að hann hafi svarað eftir bestu vitund --- heldur megi kenna ókunnugleika hans um.

Ég bar fyrst upp spurningar um hvaða vísindaleg gögn hafi legið til grundvallar alfriðun rjúpunnar í þrjú ár, í júlí sl. skömmu eftir að hæstv. umhvrh. ákvað að friða rjúpuna. Ég bar ekki upp spurningarnar af einskærum áhuga á skotveiðum heldur þótti mér sem félagsmanni í Fuglaverndarfélagi Íslands áhugavert að fá vísindaleg gögn um ástand rjúpnastofnsins. Eftir talsverða eftirgangsmuni bárust mér svör, en ekki fyrr en milli jóla og nýárs, við þeim spurningum sem ég spurði um í júlí. Spurningarnar voru, með leyfi forseta:

,,1. Hver var árangur alfriðunar rjúpnastofnsins á griðasvæði rjúpunnar í kringum Reykjavík? Hefur friðunin frá 1999 og stækkun svæðisins árið 2002 skilað marktækri fjölgun rjúpna á friðaða svæðinu?``

Svarið sem ég fékk í lok ársins ber með sér að ekki sé marktæk fjölgun á friðaða svæðinu.

Síðan spurði ég:

,,2. Er núverandi lágmark rjúpnastofnsins tölfræðilega lægra en fyrri lágmörk stofnsins?``

Svarið sem ég fékk í lok ársins var að núverandi lágmark sé ekki tölfræðilega lægra en fyrri lágmörk.

Í framhaldi þess hvað umhvrn. er seint að svara nokkrum einföldum spurningum þjóðkjörins fulltrúa --- það svarar þeim í rauninni út í hött, þegar maður spyr um vísindaleg gögn þá er bent á blaðagreinar, álit Bændasamtakanna og ég veit ekki hvað --- í framhaldinu af því spyr ég, með leyfi forseta:

,,3. Hversu mörg erindi bárust umhverfisráðuneytinu í júní, júlí og ágúst sl. þar sem óskað var eftir skriflegu svari? Hve mörgum þeirra erinda hefur ráðuneytið séð sér fært að svara?``

Eftir að hafa skoðað þau svör sem bárust frá umhvrn. er fullljóst að þriggja ára veiðibann er ákveðið á mjög veikum vísindalegum grunni. Ef hæstv. umhvrh. er enn þeirrar skoðunar að rjúpnastofninn sé í hættu þá ber að stórefla rannsóknir. Þau gögn sem liggja fyrir sýna einfaldlega að núverandi lágmark stofnsins er ekki marktækt lægra en fyrri lágmörk.