Friðun rjúpu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:25:52 (3535)

2004-01-28 14:25:52# 130. lþ. 52.5 fundur 392. mál: #A friðun rjúpu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér eru þrjár spurningar lagðar til grundvallar. Ég kýs að svara fyrstu tveimur spurningunum saman.

Samkvæmt talningum Náttúrufræðistofnunar Íslands á tveimur talningarstöðum innan friðaða svæðisins mældist 50--55% fjölgun rjúpna á svæðinu árið 2003. Á öðru svæðinu fór fjöldinn úr 20 körrum í 31, þ.e. 55% aukning, og á hinu úr 30 körrum í 45, þ.e. 50% aukning. Þetta er svipaður vaxtarhraði og hann verður mestur hjá rjúpnastofninum.

Hins vegar sýndu talningar kyrrstöðu eða verulega fækkun í fjölda rjúpna á talningarstöðum utan við friðaða svæðið. Á talningarsvæðum á Suðurlandi og Vesturlandi, í næsta nágrenni við hið friðaða svæði, var kyrrstaða, þ.e. á Suðurlandi, en veruleg fækkun á Vesturlandi. Þannig fækkaði körrum um 35%, 39% og 78% á þremur stórum talningarsvæðum á Vesturlandi. Fækkunin er sérstaklega mikil á Mýrum en þar hefur fjöldinn farið úr 71 karra í átta á fjórum árum, þ.e. nífaldur munur. Þessi munur á stofnbreytingum innan og utan við hið friðaða svæði styrkir okkur í þeirri trú að veiðibann geti leitt til stærri rjúpnastofns.

Varðandi fyrirspurn um hvort núverandi lágmark rjúpnastofnsins væri tölfræðilegra lægra en fyrri lágmörk stofnsins þá er það rétt sem kom hérna fram hjá hv. fyrirspyrjanda að svör bárust seint við þeirri fyrirspurn. Við gengum eftir svörum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands af því að þau höfðu ekki borist okkur með hinum svörunum sem hv. þm. bað um.

Þeir svara því svo til í bréfi til okkar, með leyfi virðulegs forseta:

,,Því miður láðist að svara einni spurningu er ráðuneytið beindi til Náttúrufræðistofnunar og er beðist velvirðingar á því.``

Þetta svar kemur því talsvert seinna inn. En því er til að svara þar, og það er bein tilvitnun í þetta bréf sem hv. þm. hefur fengið, með leyfi forseta:

,,Loks var spurt hvort núverandi lágmark rjúpnastofnsins væri tölfræðilega marktækt lægra en fyrri lágmörk stofnsins.

Því er fyrst til að svara að þegar Náttúrufræðistofnun talar um að rjúpnastofninn sé í lágmarki þá er ekki einungis verið að vísa til náttúrulegra sveiflna stofnsins þar sem fjór- til tífaldur munur er á mergð rjúpna í lágmarks- og hámarksárum. Hér er fyrst og fremst verið að vísa til þess að undanfarin ár hefur að jafnaði verið mun minna af rjúpum en fyrir nokkrum áratugum. Mælikvarðinn er sílækkandi stofn vísitölu fyrir rjúpur sl. 50 ár eða svo.

Erfitt er að beita einföldum tölfræðilegum aðferðum á þessi gögn, en þau benda eindregið til þess að rjúpnastofninn fari stöðugt minnkandi. Undanfarin missiri hefur Reiknifræðistofa Háskólans unnið að því í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands að prófa flókin stærðfræðilíkön til að reyna að lýsa sem best þeim breytingum sem orðið hafa á rjúpnastofninum undanfarna áratugi, svokallaða GAM-greiningu. Þar eð þessi vinna stendur nú yfir er ekki tímabært að fjalla frekar um niðurstöður þessarar greiningar en ætlunin er að skýra frá niðurstöðum hennar í skýrslu vorið 2004. Þar verður jafnframt fjallað um niðurstöður vöktunar rjúpnastofnsins sl. ár.``

Varðandi síðustu fyrirspurn hv. þm., um hversu mörg erindi bárust umhvrn. í júní, júlí og ágúst sl. þar sem óskað var eftir skriflegu svari og hve mörgum þeirra erinda ráðuneytið hafi séð sér fært að svara, þá er því til að svara að ráðuneytinu barst ein formleg fyrirspurn um málefni rjúpunnar í júní, júlí og ágúst og ein í september þar sem óskað var eftir skriflegum svörum og hefur þeim verið svarað. Auk þess hefur ráðuneytinu borist fjöldi óformlegra fyrirspurna sem svarað hefur verið munnlega, með tölvupósti eða viðræðum við viðkomandi. Ég vona því að sé búið að svara öllum fyrirspurnum hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um rjúpnamálin. Það er að mínu mati réttmæt gagnrýni að þetta svar hefur borist seint. En það er vegna þess að ráðuneytið hafði ekki fengið svör frá Náttúrufræðistofnun á tilsettum tíma. Það er svo sem ekkert sem er til eftirbreytni. En þetta eru skýringarnar.