Skattar á vistvæn ökutæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:39:57 (3541)

2004-01-28 14:39:57# 130. lþ. 52.6 fundur 398. mál: #A skattar á vistvæn ökutæki# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hvort umhvrh. telji vænlegt að ýta undir notkun vistvænna ökutækja með hagrænum stjórntækjum, svo sem breytingum á opinberum gjöldum og öðrum aðgerðum? Svarið við þeirri spurningu er: Já, ég tel það vænlegt.

Eins og þingmönnum er ljóst kemur um þriðjungur losunar gróðurhúsaloftegunda frá samgöngum. Bílaumferð hefur einnig mikil áhrif á loftgæði í þéttbýli og þar með á lífsgæði þjóðarinnar. Bílum fer ört fjölgandi og því nauðsynlegt að sporna við mengun með þeim tækjum sem tiltæk eru. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, Velferð til framtíðar, sem samþykkt var árið 2002, eru sett þau markmið að íbúar landsins búi við heilnæmt andrúmsloft, loftmengun af völdum umferðar verði haldið í lágmarki og dregið verði úr loftmengun á höfuðborgarsvæðinu þannig að hún verði umtalsvert lægri innan nokkurra ára en hún er í dag. Ein af lykilaðgerðunum sem tiltækar eru til að ná þessu markmiði er að nota hreinna eldsneyti og umhverfisvænni farartæki. Í því sambandi er ein leiðin að markmiðinu eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Gjöld á eldsneyti taki mið af mengun sem af því hlýst. Þannig verði t.d. gjöld á hreinni dísilolíu minni en á meira mengandi eldsneyti og gjöld á metani og vetni enn minni. Gjöld og skattlagning á einkabílum og öðrum farartækjum verði einnig með þeim hætti að hagkvæmara verði að reka sparneytna bíla en orkufrekari og að bílar sem noti ,,hreint`` eldsneyti beri minnstu gjöldin.``

Umferðin er einnig mikilvæg þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda eins og hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Í stefnumörkuninni um sjálfbæra þróun er stefnt að því að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis, þar segir m.a.:

,,Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota. Núverandi kerfi þungaskatts verði a.m.k. að hluta til breytt yfir í olíugjaldskerfi. Með því mun skapast efnahagslegur hvati til eldsneytissparnaðar. Gjaldtöku verði stillt af þannig að hlutfallslega hagkvæmara verði að reka litla dísilbíla en nú er. Stuðlað verði enn frekar að auknum innflutningi á sparneytnari bílum með breytingum á vörugjaldi af bifreiðum.``

Töluvert hefur þegar verið gert á þessu sviði. M.a. hafa ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, verið undanþegin vörugjaldi. Ökutæki sem nota innlenda orkugjafa greiða 50% lægri þungaskatt. Einnig hefur hluti virðisaukaskatts vegna umhverfisvænna hópbifreiða sem uppfylla tiltekin skilyrði verið endurgreiddur. Ef stefnumið ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga er ljóst að halda þarf áfram á þeirri braut og skoða til hvaða frekari aðgerða megi grípa.

Nú er starfandi á vegum iðnrn. samráðsnefnd ráðuneyta sem vinnur að heildstæðri úttækt og mótun stefnu í orkumálum samgangna hér á landi. Flest bendir til að kerfisbreyting muni verða á orkunotkun samgangna á næstu áratugum, t.d. með nýrri tækni við rafbíla og vetnisvæðingu farartækja og skipa. Megintilgangur vinnu nefndarinnar er að ráðuneyti orkumála, umhverfismála, fjármála, samgangna og sjávarútvegs fái yfirsýn yfir stöðu og framvindu í orkumálum samgangna og geti mótað stefnu hér á landi í þessum efnum til framtíðar. Mér er kunnugt um það að samstarf ráðuneytanna hefur einkum beinst að vetnismálum enda felur vetni í sér mikla möguleika.

Virðulegur forseti. Hv. þm. spyr einnig í b-lið spurningar sinnar um hugsanlegar aðgerðir, t.d. í tengslum við bílastæði og jarðgöng. Þar felast að mínu mati möguleikar. Mér er kunnugt um að yfirvöld í Ósló hafa ákveðið að veita vistvænum ökutækjum sérstök kjör til að hvetja til þess að fleiri kaupi sér slíka bíla. Mér vitanlega er gjaldskylda á bílastæðum eða bílastæðahúsum bæði í sveitarfélögunum Akureyri og Reykjavík. Ég tel að þar séu möguleikar sem hugsanlega væri hægt að nýta.

Virðulegi forseti. Ég er þess fullviss að miklar breytingar eru fram undan í orkumálum samgangna. Það er mikilvægt að við Íslendingar séum vakandi yfir þeirri þróun og stuðlum að því að hún nái fram að ganga eins vel og hægt er.