Skattar á vistvæn ökutæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:44:20 (3542)

2004-01-28 14:44:20# 130. lþ. 52.6 fundur 398. mál: #A skattar á vistvæn ökutæki# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afar mikilvægu máli. Út af fyrir sig er ég ánægð með hversu jákvæðar undirtektir fyrirspurnin fær hjá hæstv. umhvrh. En það liggur fyrir og telst sannreynt að gífurlegar loftslagsbreytingar hafa orðið á norðurslóð. Loftslagsbreytingar eru tvöfalt hraðari á norðurslóð en annars staðar í Evrópu. Það er furðulegt til þess að hugsa, miðað við það hve lengi þær upplýsingar hafa legið fyrir, að ekki skuli þegar hafa verið brugðist við á einhvern hátt. Það er óumdeilt að það er í umferðinni sem við á Íslandi getum gert breytingar. Þar getum við haft veruleg áhrif. Við notum bílinn meira en aðrar þjóðir og það er í umferðinni, með minni umferð eða annars konar umferð, sem við getum sýnt vilja í verki. Það er dálítið skrýtið hve lítið hefur gerst og enn ekkert áþreifanlegt hvað varðar dísilbílana þótt áformin hafi verið góð.