Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:03:48 (3551)

2004-01-28 15:03:48# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Mörður Árnason:

Forseti. Áætlunin um þjóðgarð á Vatnajökli er eitthvað það besta sem fram hefur komið í þjóðgarðamálum og náttúruvernd á síðari árum. Mér þykir hörmulegt að heyra að þessi áætlun og þetta verk stefni í að verða bitbein manna fyrir norðan, sunnan, vestan og austan jökulinn sem ætla sér nú að fá bita af einhverri köku sem þeir telja að þarna standi til boða. Það er auðvitað eðlilegt að reka þjóðgarð af þessu tagi í tengslum við þá sem næst búa en ég hlýt að óska sérstakrar skýringar á því hvaða merkingu orðið ,,heimamenn`` hefur í tengslum við þjóðgarða á jökli, og þar að auki væri fróðlegt að vita síðan hvenær hv. þm. Halldór Blöndal varð Norðlendingur sem hann taldi sig vera áðan, hæstv. forseti.