Skaðleg efni og efnavara

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:15:23 (3558)

2004-01-28 15:15:23# 130. lþ. 52.8 fundur 423. mál: #A skaðleg efni og efnavara# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Fyrir skemmstu var haldinn fundur á vegum Umhverfisstofnunar um nýja löggjöf Evrópusambandsins um kemísk efni. Þar voru flutt athyglisverð erindi, annað af Sydsel Dyekjær og hitt af Sigurbjörgu Gísladóttur, forstöðumanni hjá Umhverfisstofnun. Í þessum erindum kom fram ýmis fróðleikur sem er kveikjan að þeim tveimur fyrirspurnum sem ég hef hér lagt fyrir hæstv. umhvrh.

Mikill fjöldi kemískra efna er í almennri notkun í samfélagi okkar. Mörg þessara efna hafið gengið í gegnum strangar vísindalegar prófanir en þúsundir þeirra hafa aldrei verið prófuð á vísindalegan hátt. Þess vegna er sáralítið vitað um áhrifin sem þau geta haft á heilsufar manna eða umhverfið.

Notkun kemískra efna hefur margfaldast undanfarna áratugi. Árið 1930 er áætlað að heimsnotkun þeirra hafi verið um ein milljón tonna á ári en í dag er sú notkun komin upp í 400 milljónir tonna á ári. Og þó þessi efni séu fundin upp til að auðvelda okkur lífið og auka þægindi okkar í velmegunarsamfélaginu vitum við ekki hvaða neikvæðu áhrif eiga eftir að koma í ljós í umhverfinu eða hvaða heilsubresti á síðar meir eftir að rekja til þessara efna. Á téðum fundi sagði Sigurbjörg Gísladóttir frá því að íslensk lög og reglur sem gilda um notkun kemískra efna séu að stofni til frá árinu 1968 og hafi lítið breyst síðan. Þau séu á engan hátt fullnægjandi miðað við kröfur tímans í dag, kannski vegna þess að Umhverfisstofnun hefur takmarkaðar heimildir til að afla sér upplýsinga um þessi efni.

Í máli Sigurbjargar kom fram að um 30 þúsund efni séu markaðssett í meira magni en einu tonni í Evrópu árlega. Af öllum þessum efnum, 30 þúsund, hafa aðeins um 140 verið tekin til sérstakrar skoðunar á síðustu 10 árum vegna gruns um að þau skaði umhverfið eða séu heilsuspillandi. Evrópusambandið virðist nú hafa viðurkennt vandann. Þar liggur fyrir tillaga að nýrri löggjöf sem gengur undir nafninu REACH. Hún felur í sér tillögur um að efnaframleiðendur verði ábyrgir fyrir því að efni séu skráð og metin undir strangara eftirliti en verið hefur.

Nú hafa efnaframleiðendur hins vegar snúist gegn þessari viðleitni yfirvalda og risið upp til varnar hagsmunum sínum og því miður hefur þeim tekist að útvatna upphaflegar tillögur talsvert mikið. Upphaflegt markmið var auðvitað að vernda heilsu og umhverfi og stuðla að sjálfbærri þróun en nú virðist sem sóðarnir innan iðnaðarins séu ráðandi um stefnumörkunina. Frá þessu greindi Sydsel Dyekjær á téðum fundi.

Afstaða Norðurlandanna hefur verið til fyrirmyndar í þessum efnum. Þar eru mörg iðnfyrirtæki sem standa sig vel og norræn umhverfisverndarsamtök hafa undanfarið tekið saman skýrslu um sjónarmið slíkra fyrirmyndarfyrirtækja til að undirbyggja málflutning sinn innan Evrópusambandsins, enda ætla þau að freista þess að sannfæra evrópska stjórnmálamenn um að endurvekja þurfi þær góðu hugmyndir og þann góða ásetning sem var að finna í upphaflegri tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

En nú spyr ég, virðulegi forseti, hæstv. umhvrh. um þær aðgerðir sem stjórnvöld hér á landi beita til að takmarka notkun skaðlegra efna og sömuleiðis um hver afstaða íslenskra stjórnvalda er til Evrópulöggjafarinnar væntanlegu.