Skaðleg efni og efnavara

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:18:42 (3559)

2004-01-28 15:18:42# 130. lþ. 52.8 fundur 423. mál: #A skaðleg efni og efnavara# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi það hvaða aðgerðir stjórnvöld beita hér á landi til að takmarka notkun skaðlegra efna og efnavara og hvernig er háttað eftirliti með notkun slíkra efna þá er því til að svara að sala og dreifing eiturefna er algjörlega bönnuð á almennum markaði en leyfð í iðnaði. Sala eiturefna er bundin leyfi umhvrh. Þeir sem nota eiturefni að staðaldri við störf sín þurfa leyfi frá Vinnueftirliti ríkisins. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga getur heimilað einstakar afgreiðslur eiturefna fyrir einstaklinga eða fyrirtæki með því að gefa út eiturbeiðnir. Innflutningur er áritunarskyldur.

Varnarefni eru bönnuð nema þau hafi verið sérstaklega skráð hér á landi, þ.e. fengist hafi leyfi til innflutnings, framleiðslu, sölu og notkunar. Í undantekningartilvikum, þ.e. þegar upp koma sérstök vandamál, eru veittar tímabundnar og skilyrtar undanþágur til innflutnings og notkunar óskráðra efna. Hættulegustu varnarefnin eru eingöngu heimiluð til notkunar fyrir fagmenn. Sala hættulegustu varnarefnanna er bundin leyfi umhvrh. Innflutningur er áritunarskyldur.

Ósoneyðandi efni og tiltekin efni sem valda gróðurhúsaáhrifum eru bönnuð eða takmörkuð í samræmi við ákvæði reglugerða. Ráðherra getur veitt tímabundnar undanþágur í ákveðnum tilvikum. Innflutningur ósoneyðandi efna er áritunarskyldur.

Ýmis önnur efni eru takmörkuð sérstaklega með reglugerðum. Undir þessar takmarkanir fellur stór hópur efna sem flokkast sem krabbameinsvaldandi, geta valdið stökkbreytingum eða haft áhrif á æxlun. Einnig eru ýmsar sérreglur um takmarkanir á notkun efna við notkunarsvið. Einnig eru í vissum tilvikum bönn eða takmarkanir á því hvaða efni eða hvaða magn er heimilt að nota í tilteknar vörutegundir, svo sem snyrtivörur. Í sumum tilvikum er notkun takmörkuð fyrir almenning en leyfð fyrir fagmenn og í iðnaði.

Eftirlit með framkvæmdinni tekur mið af því að fylgjast með því að ekki séu á markaði eða fari á markað efni sem óheimilt er að selja eða nota. Einnig að meðferð, notkunarleiðbeiningar, innihaldslýsingar og aðrar upplýsingar um efni og vörur séu í lagi og að leyfi séu fyrir hendi þegar við á. Eftirlit er hjá Vinnueftirliti ríkisins ef um vinnustað er að ræða, hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga þegar um er að ræða sölu og dreifingu vöru og einnig innan fyrirtækja sem heilbrigðiseftirlitið veitir starfsleyfi.

Eftirlit með innflutningi er hjá Umhverfisstofnun í samvinnu við tollyfirvöld. Áritun innflutningsleyfa er hjá Umhverfisstofnun að hluta og að hluta hjá Vinnueftirliti ríkisins, þ.e. sé um að ræða varnarefni í landbúnaði og garðyrkju og önnur eiturefni sem notuð eru á vinnustöðum. Í þeim tilvikum þar sem innflutningur er háður kvótatakmörkunum er eftirlitið hjá Umhverfisstofnun.

Virðulegur forseti. Í öðru lagi er spurt: ,,Hver er afstaða stjórnvalda til væntanlegrar löggjafar ESB sem gengur undir nafninu REACH og hver verða helstu áhersluatriði þeirrar löggjafar?``

Því er til að svara að íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir því að taka upp væntanlega löggjöf ESB um efni og efnavörur, enda verður þar væntanlega margt til bóta miðað við þá löggjöf sem í gildi er í dag og Ísland hefur tekið upp. Á þessu stigi liggur löggjöfin þó aðeins fyrir í drögum framkvæmdastjórnarinnar og eiga drögin eftir að fara til umfjöllunar í Evrópuþinginu og ráðherraráðinu. Nýja löggjöfin eins og hún liggur fyrir í dag í drögum, nær yfir þá löggjöf sem í dag skiptist í tilskipanir um takmarkanir og bönn, flokkun og merkingar og mat á áhættu af nýjum og skráðum efnum.

Ein af stóru breytingunum er að ábyrgð á framkvæmd færist í auknum mæli frá stjórnvöldum yfir á hendur iðnaðarins. Sett verður á laggirnar efnastofnun Evrópu sem mun sjá um þátt framkvæmdastjórnarinnar í framkvæmd löggjafarinnar. Umhvrn. vinnur nú að endurskoðun laga um eiturefni og hættuleg efni og munu endurskoðuð lög fjalla um efni og efnavöru í víðara samhengi. Í væntanlegri löggjöf mun verða tekið tillit til væntanlegra breytinga á Evrópulöggjöfinni eftir því sem efni standa til, jafnframt því sem leitast verður við að bæta yfirsýn stjórnvalda yfir notkun skaðlegra efna í landinu og styrkja lagaheimildir sem snúa að notkun skiptireglunnar og varúðarreglunnar með það að markmiði að vernda umhverfið og auka öryggi og heilsu notenda hættulegra efna.