Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:42:31 (3564)

2004-01-28 15:42:31# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er held ég ekki of djúpt í árinni tekið að segja að sú spilaborg blekkinga og lyga sem byggð var upp af Bandaríkjamönnum og fylgismönnum þeirra í aðdraganda innrásarinnar í Írak sé endanlega að hrynja þessa dagana. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, Hans Blix og El Baradei, hafa nú getað tjáð sig um stöðu mála í aðdraganda þess að þeir voru látnir taka pokann sinn og fara út úr Írak. Vopnaeftirlitsmaður Bandaríkjastjórnar sjálfrar, David Kay, sem sagði af sér síðastliðinn föstudag og síðast en ekki síst Colin Powell sjálfur í nýlegri heimsókn til Georgíu, allir þessir menn hafa átt þátt í að blása síðustu spilunum um koll. Það finnast engin gereyðingarvopn í Írak þrátt fyrir linnulausa leit með ærnum tilkostnaði í níu mánuði. Það sem meira er: Leitin nú staðfestir að vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna á tíunda áratugnum skilaði miklum árangri. Írakar hafa að öllum líkindum losað sig við öll eldri sýkla- og efnavopn sem voru frá því fyrir Persaflóastríðið 1991 strax á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Síðast en ekki síst segir David Kay að engar raunhæfar áætlanir hafi legið fyrir um framleiðslu slíkra vopna hvað þá annað.

Sem sagt, vopnaeftirlitið skilaði miklum árangri. Það fékk þó ekki meiri tíma. Beitt var blekkingum til þess að láta menn halda að umheiminum stafaði ógn af Írak. Því var t.d. logið að Írakar hafi reynt að kaupa kjarnakleyf efni í Afríku. Ásakanir um tengsl við al Kaída samtökin hafa allar reynst úr lausu lofti gripnar.

Það væri langskásti kosturinn fyrir formenn stjórnarflokkanna á Íslandi að viðurkenna mistökin og biðja þing og þjóð afsökunar í leiðinni og taka Ísland út af lista þeirra ríkja sem studdu þessar aðgerðir. Mín vegna mega þeir félagar brjótast áfram um í fylgispektardíki Bandaríkjastjórnar og sökkva þar dýpra og dýpra. En það sem verra er er að þeir draga orðstír þjóðarinnar niður með sér og því mótmæli ég.