Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:49:38 (3567)

2004-01-28 15:49:38# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Alvarlegir atburðir eru að gerast í Írak og spurning vaknar um hver okkar ábyrgð sé núna. Fyrir jólin mótmæltu þúsundir kvenna, þar á meðal fyrrverandi dómarar og ráðherrar, nýrri reglugerð ríkisráðsins um að staða og réttindi kvenna muni framvegis ráðast heima í héraði. Óttast er að á mörgum svæðum muni lög múslima, nefnd sharia, gilda um samskipti kynjanna. Þetta eru sömu lög og hjá talibanastjórninni í Afganistan með þeirri undirokun og réttindaleysi kvenna sem heimurinn þá horfði ráðþrota á.

Í fjóra áratugi hafa írakskar konur búið við nútímalegustu lög múslimaheimsins um menntun, jafnrétti og sjálfstæði, og Írak setti fyrst arabalanda lög um launajafnrétti. Þarna hafa starfað mjög öflug kvennasamtök. Einræðisherrann Saddam hreyfði ekki við réttindum kvenna.

Formælendur mótmælendanna sýndu harkaleg viðbrögð. Réttindin okkar voru ekki fullkomin, sögðu þær, en nú verða írakskar fjölskyldur sendar til baka til miðalda. Við verðum sendar heim og dyrunum lokað. Eiginmenn munu geta kastað konunum á dyr að geðþótta og þeim verður heimilað að eiga fjórar, fimm, sex konur. Allir sem kallast klerkar munu geta sett dómstól í húsi sínu og kveðið á um giftingar, skilnaði og réttindi okkar. Ákall írakskra kvenna er að þetta verði að stöðva.

Paul Bremer landstjóri mun eiga að staðfesta svona breytingar. Við hann eru nú bundnar vonir þó að enginn viti hvað gerist eftir 30. júní. En ég spyr: Hver er ábyrgð okkar sem tókum þátt í og studdum innrásina og þá væntanlega eftirleikinn? Kemur okkur við hvort þessar breytingar ganga eftir? Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Mun Ísland láta heyra í sér um þetta alvarlega mál?