Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:54:21 (3569)

2004-01-28 15:54:21# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Það veit hvert mannsbarn að meginástæða þess að Bandaríkin og Bretland réðust inn í Írak var sú að þau voru þess fullviss að stjórnvöld í Bagdad byggju yfir gereyðingarvopnum. Hvert mannsbarn í víðri veröld veit það nema kannski hæstv. forsrh. ríkisstjórnar Íslands, Davíð Oddsson, sem í yfirheyrslu DV í gær stendur svo glaður og svo ánægður með þá ákvörðun sína að styðja aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak. Þar segir þessi leiðtogi íslensku ríkisstjórnarinnar ekki orð um gereyðingarvopn, aðalatriðið hafi alltaf verið það að koma harðstjóra frá völdum. Það er eins og ráðherrann hafi verið á tunglinu, sambandslaus síðasta ár, slík er órafjarlægðin sem þessar yfirlýsingar hans eru frá umfjöllunum fjölmiðla og ríkisstjórna heims um stríðið og ástæður þess.

Nei, íslenskir stjórnarherrar töldu sig þess umkomna að setja íslenska þjóð á listann yfir hina staðföstu vini herskárrar Bandaríkjastjórnar, sérstaka stuðningsmenn þeirra sem ætluðu að sölsa undir olíulindir Íraka undir fölsku flaggi og sjá stórfyrirtækjum sínum og risaverktökum fyrir arðsömum verkefnum að aflokinni eyðileggingunni.

En hvar var virðingin fyrir viðurkenndum samskiptareglum þjóða á alþjóðavettvangi? Sennilega líka á tunglinu, virðulegi forseti, eða einhvers staðar þaðan af fjær úti í geimnum. Það virðist eins og virðing hæstvirtra ráðherra fyrir írakskri þjóð sé slíka óravegu í burtu frá öllum raunveruleika. Eða telja hæstv. ráðherrar í alvöru framkvæmanlegt að koma á lýðræði í stríðshrjáðu landi kúgaðrar þjóðar sem á sér enga hefð eða sögu sem getur gert henni kleift að innleiða vestrænt lýðræði á þann hátt sem sumir hafa viljað blekkja þjóðir heims til að trúa að sé hægt að gera sisona, næstum því eins og að drekka vatn? Allt það sem verið er að gera írakskri þjóð er gert með þvingun og vopnavaldi, þjóðin lifir nú með gapandi bandaríska byssukjafta yfir höfði sér, a.m.k. jafnóttaslegin um framtíð sína og áður.

Nei, frú forseti, stríð gegn hryðjuverkum var aldrei hugsað sem tæki til að koma kúgaðri þjóð til hjálpar.