Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:59:19 (3571)

2004-01-28 15:59:19# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Á vormánuðum síðasta árs var íslenska þjóðin dregin með beinum hætti inn í atburðarás sem valdið hefur allri heimsbyggðinni mikilli hryggð. Stríðsárás Bandaríkjamanna, Breta og fleiri þjóða, þar á meðal Íslendinga, var hafin á fölskum forsendum. Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Íslands hafa opinberlega gefið í skyn að eign Íraka á gereyðingarvopnum sé ekki raunin.

Sögulegur harmleikur hefur átt sér stað, harmleikur sem skilur eftir sig aukið hatur milli tveggja ólíkra menningarheima, harmleikur þar sem þúsundir óbreyttra borgara hafa týnt lífi. Aldrei hefur heimsbyggðinni staðið meiri ógn af hryðjuverkastarfsemi en nú eftir óréttmæta árás á Írak. Öll heimsbyggðin hefur tapað á ofbeldinu, ofbeldi sem við Íslendingar stóðum á bak við ásamt Bandaríkjamönnum, Bretum og nokkrum þjóðum til viðbótar.

Frú forseti. Að svo komnu hefur hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson engan málstað annan en þann að Írakar hafi búið yfir gereyðingarvopnum í stríði sínu við Írani fyrir margt löngu. Hér er um ónýtan málstað að ræða og ljóst að hæstv. ráðherra leitar ákaft að minnsta tilefni til að réttlæta afdrifaríkar gjörðir sínar á síðasta ári. Bandaríkjamenn beittu Japani gereyðingarvopnum í seinni heimsstyrjöldinni. Atómsprengju var varpað á heila borg. Hundruð þúsunda borgara týndu lífi á örskömmum tíma. Hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. eiga að sýna iðrun sína í verki og biðja íslenska þjóð afsökunar á þætti sínum í þeim mikla harmleik sem hrundið var af stað snemma á síðasta ári.