Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 16:03:34 (3573)

2004-01-28 16:03:34# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Styrjaldir fela í sér hörmungar. Um það er enginn ágreiningur. En þegar orsakir og afleiðingar styrjalda eru ræddar spretta upp ýmis álitamál. Íraksmálið snýst ekki eingöngu um það hvort til séu eða hafi verið gereyðingarvopn í Írak. Umræðan snýst, og hlýtur líka að snúast, um þann mikla harðstjóra, ekki einhvern harðstjóra, heldur einn mesta harðstjóra veraldarsögunnar sem þar hafði sölsað undir sig völdin. Umræðan hlýtur líka að snúast um það að þessi sami harðstjóri hafi ítrekað hunsað samþykktir og vilja alþjóðasamfélagsins. (SJS: Að vísu ...)

Þessi umræða hlýtur líka að snúast um það að þessi harðstjóri hafi þurrkað út heilu þorpin sinna eigin landsmanna. Myndir af látnum mæðrum með látin börn sín í fjallaþorpum í Írak ljúga ekki. (Gripið fram í.) Þær sitja eftir. Mikil er ábyrgð þess harðstjóra. En samábyrgð alþjóðasamfélagsins hlýtur líka að vera mikil gagnvart þessu ástandi. Sam\-ábyrgðin er vitaskuld mikil, sambærileg við þá ábyrgð sem alþjóðasamfélagið vildi axla í síðari heimsstyrjöldinni þegar það réðist inn í Þýskaland til þess að hrekja þar burt annan harðstjóra, þekktan úr veraldarsögunni, sem einnig hafði staðið að því að útrýma heilu þjóðarbrotunum innan sinna eigin raða.

Grundvallarspurningin, frú forseti, hlýtur líka að vera þessi: Hvað viljum við gera nú? Viljum við snúa sögunni við og hleypa harðstjóranum aftur að valdastóli sínum svo hann megi taka upp fyrri iðju? Eða viljum við taka þátt í því með alþjóðasamfélaginu að byggja þar upp nýtt Írak með alþjóðasamfélaginu fyrir fólkið í Írak? (Gripið fram í.) Ég styð a.m.k. síðari leiðina, frú forseti.