Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:12:26 (3580)

2004-01-28 18:12:26# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Það er þrennt sem ég vil leggja inn í umræðuna. Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að það sé alveg skýrt af hálfu löggjafans og yfirvalda umhverfismála að þegar þjóðgarðar eru stofnaðir þurfi þau lönd sem undir þá eru lagðir ekki að vera alfarið í ríkiseigu.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög brýnt, ég tala þar af reynslu sem gamall umhverfisráðherra, að heimamenn komi í ákaflega ríkum mæli að stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða. Mestu árekstrarnir sem ég lenti í sem umhverfisráðherra voru einmitt út af því að heimamenn komu ekki í nægilega ríkum mæli að stjórn ýmissa þjóðgarða.

Í þriðja lagi vil ég varpa fram þeirri hugmynd til hæstv. ráðherra, fyrst hún áformar að setja sérstök lög um hinn nýja stóra þjóðgarð sem við höfum verið að ræða í dag, að sá hluti þjóðarinnar sem býr í Reykjavík eigi líka með einhverjum hætti aðkomu að stjórn þjóðgarðsins. Hér er um svo víðfeðmt flæmi að ræða að ég held að við verðum að fara fram á það.