Auglýsingar í tölvupósti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:19:34 (3584)

2004-01-28 18:19:34# 130. lþ. 52.10 fundur 365. mál: #A auglýsingar í tölvupósti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til samgrh. um auglýsingar í tölvupósti, þ.e. hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir lagasetningu til þess að setja skorður við óumbeðnum sendingum auglýsinga í tölvupósti.

Nýlega settu bresk stjórnvöld lög um að óheimilt sé að senda óumbeðinn auglýsingatölvupóst. Með þessu móti hyggjast stjórnvöld stemma stigu við flóði svonefnds ruslpósts sem flestir notendur tölvupóstsins þekkja af illri raun en hann flæðir svo tugum og hundruðum skiptir yfir notendur dag hvern. Samkvæmt löggjöfinni bresku á sá sem sendir tölvupóst af þessu tagi yfir höfði sér að verða dæmdur til 5 þúsund punda sektar, eða á sjöunda hundrað þúsund íslenskar kr., eða ótakmarkaða refsingu kviðdóms. Þó liggur fangelsisdómur ekki við broti af þessu tagi samkvæmt löggjöfinni bresku.

Á sömu vegferð eru áströlsk stjórnvöld og setja sambærileg lög til að vinna gegn þessum vanda netverja. Vandinn er hins vegar sá að mikið af þessum pósti kemur erlendis frá og því næðu íslensk lög ekki yfir slíkar sendingar frekar en bresk lög og áströlsk ná yfir sendingar utan þeirra landamæra. Til dæmis kom í ljós samkvæmt ástralskri könnun að aðeins 0,5% slíkra sendinga til ástralskra notenda eru upprunnin í Ástralíu.

Það er hins vegar mikilvægt í þessu máli að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi þjóðanna til að sporna við ruslpóstinum og fylgja í kjölfar þeirra sem slík lög hafa sett og í því ljósi skora ég á hæstv. samgrh. að kanna kosti og galla slíkrar lagasetningar hið fyrsta.

Fjöldamargt má nefna til stuðnings því að mikilvægt sé að kanna kosti slíkrar lagasetningar, t.d. eru tveir þriðju hlutar tölvupósts óumbeðnar auglýsingar og samkvæmt nýjustu gögnum breska fyrirtækisins MessageLabs sem sérhæfir sig í síun tölvupósts var ruslpóstur 62,7% alls tölvupósts til notenda í desember og á bilinu 50--60% í mánuðinum þar á undan. Þessar tölur sýna svart á hvítu hvernig ruslpósturinn vex að umfangi frá mánuði til mánaðar og fram kemur í frétt í New Scientist að sums staðar eru hlutföllin enn þá hærri.

Líklega er rétta leiðin að setja lög á póstveitur um að þær síi ruslpóst frá almennum pósti en fyrir okkur Íslendinga væri best að sú síun væri erlendis, þ.e. að þessi umferð væri ekki á tengingarnar til og frá landinu. Þá má einnig nefna að gagnaflutningur í dreifðum byggðum landsins er oft það hægvirkur að ruslsendingar gera íbúum illa eða ekki kleift að nýta netið í t.d. námi og starfi. Notendur verða að geta krafist þess að þjónustuveitur séu ekki að miðla ruslpósti til þeirra líkt og hægt er að skrá slíka hluti hjá póstinum.

Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgrh., með leyfi forseta:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagasetningu til þess að setja skorður við óumbeðnum sendingum auglýsinga í tölvupósti?