Auglýsingar í tölvupósti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:27:55 (3586)

2004-01-28 18:27:55# 130. lþ. 52.10 fundur 365. mál: #A auglýsingar í tölvupósti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir málefnalega umræðu um þetta mál af því að eins og fram kom í máli hans og mínu í upphafi umræðunnar þá rænir ruslpósturinn miklum tíma frá notendum póstsins, sem eru orðnir fjöldamargir og ef ekki flestir á vinnumarkaði, og teppir mikilvægar boðleiðir á netinu, sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki yfir mestu bandvíddinni að ráða og eiga ekki kost vegna búsetu sinnar á því að hafa aðgang að bestu boðleiðunum. Með aðgangi að internetinu er ekki einungis um að ræða aðgengi að afþreyingu og skemmtun heldur er þetta bókstaflega aðgengi að nýjum tækifærum í námi og menntun hvers konar og ekki síst í margvíslegri starfsemi. Fyrir einherja hvers konar og íbúa landsbyggðarinnar sem afla sér menntunar fyrst og fremst í gegnum fjarnám og slíka nýbreytni í menntakerfi okkar, sem held ég að verði nú seint fulllofað sem ný tækifæri fyrir þá sem vilja afla sér menntunar og búa fjarri höfuðborgarsvæðinu og hafa ekki kost á að sækja sér menntun hingað, þá held ég að ákaflega mikilvægt sé að hnykkja verulega á þeirri lagasetningu sem er að finna í lagagreininni sem hæstv. samgrh. nefndi hér áðan með því t.d. að skoða hvort ekki beri að taka upp sektir ef menn brjóta gegn lögum þessum, eins og Bretarnir gera. Það eru mjög háar sektir hjá þeim. Það ætti að hafa talsverðan fælingarmátt. Eins og allir vita virkar slík lagasetning ekki ef engin viðurlög liggja við broti gegn henni, eins og reynd málsins er í dag. Ég hvet hæstv. samgrh. til að endurskoða hvort ekki beri að leita leiða til að herða verulega á henni.