Auglýsingar í tölvupósti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:30:08 (3587)

2004-01-28 18:30:08# 130. lþ. 52.10 fundur 365. mál: #A auglýsingar í tölvupósti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að upplýsingatæknin og notkun netsins eru hreint ævintýri, ekki síst fyrir okkur Íslendinga sem búum tiltölulega afskekkt, fámenn þjóð í stóru landi. Kostirnir við netið og notkun þess eru fjölmargir. Þess vegna þurfum við Íslendingar bæði að vera vel á verði við að nýta okkur tæknina, skapa þessi skilyrði, og líka huga að því að vandamálum sé bægt frá eins og það sem hér er til umfjöllunar, ruslpósturinn svokallaði. En það er nú þannig með blessaða tæknina að hún bjargar okkur stundum. Og nú les ég það á netinu, svo ég auglýsi nú netið, á mbl.is, að Bill Gates, sá merki frömuður í upplýsingatækninni, hafi sagt frá því á fundi með fulltrúum ríkisstjórna arabalandanna í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, að ruslpóstur verði ekki lengur vandamál árið 2005. Bill Gates ætlar að vera búinn að leysa þetta á næsta ári. Þá verði búið að smíða svo öflugar síur að þessu verði öllu meira og minna bægt frá. Við getum því alið þá von í brjósti að tölvuspekingarnir hjá Microsoft leysi þetta fyrir okkur að einhverju leyti. Engu að síður mun ég, eins og ég sagði fyrr í svari við fyrirspurn hv. þm., tryggja það að ráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun, sem við höfum falið að fylgjast með öryggi á netinu, fylgist með þessu og finni leiðir. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessi varnaðarorð sem hann hafði hér uppi, því við þurfum að tryggja umferðina á netinu sem allra best.