Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:44:55 (3592)

2004-01-28 18:44:55# 130. lþ. 52.12 fundur 393. mál: #A kostnaður við að stofna fyrirtæki# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli fyrir atvinnulíf sérhverrar þjóðar að hægt sé að virkja þann nýsköpunarkraft og frumkvöðulsþrótt sem býr með sérhverri þjóð. Það vill svo til að það liggur fyrir að nýsköpunarþrótturinn hjá Íslendingum er ansi mikill. Alþjóðleg könnun, sem var gerð m.a. með þátttöku Háskólans í Reykjavík, sýndi að 11,3% íslensku þjóðarinnar eða einn af hverjum níu telst virkur í því sem flokka má sem frumkvöðlastarfsemi. Í sömu könnun kom líka í ljós að nánast helmingur af þjóðinni telur sig hafa hæfileika og kunnáttu til þess að stofna fyrirtæki. Þetta skiptir ákaflega miklu máli og er þróttur sem við þurfum að virkja.

Þegar gerð var könnun á því af hálfu Alþjóðabankans hversu mikla fyrirhöfn og fjármuni þarf til þess að stofna fyrirtæki á Íslandi var Ísland ekki einu sinni tekið með í þeim samanburði. Verslunarráð Íslands á hins vegar hrós skilið fyrir að hafa gert bragarbót á þessu vegna þess að Verslunarráðið gerði könnun og samanburð á stöðu Íslands í þessu varðandi önnur lönd. Sú könnun leiddi þá gleðilegu niðurstöðu í ljós að stjórnsýslan á Íslandi er með þeim hætti að hún veldur litlum hindrunum að því er varðar stofnun fyrirtækja. Skrifræðið hér á landi í kringum það að stofna fyrirtæki er með allra minnsta móti. Þannig tekur ekki nema einn dag að sækja um skráningu hjá ríkisskattstjóra og það tekur átta daga að fá virðisaukaskattsnúmer hjá skattstjóra. Það er töluvert minna en í ýmsum öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við, þó að vísu sé að draga þarna saman með okkur og öðrum ríkjum. Það vekur t.d. eftirtekt að þetta er miklu flóknara í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi. Þar, einkum og sér í lagi í Þýskalandi, sjáum við að það dregur úr þróttinum í atvinnulífinu. Það stafar ekki síst af því að það er erfitt fyrir t.d. ungt fólk að stofna fyrirtæki í kringum viðskiptahugmyndir sínar.

Hér á landi bagar það hins vegar að það kostar mun meira að skrá einkahlutafélög en annars staðar. Það kostar hér 86 þús. kr., sem er 3,7% af landsframleiðslu á mann, en í sumum öðrum ríkjum eins og Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum er það miklu minna, eða frá 0% upp í 0,7% af landsframleiðslu á mann.

Þess vegna varpa ég fram þessum spurningum: Hvað veldur því að kostnaðurinn við að stofna fyrirtæki hér á landi er svo hár sem raun ber vitni? Og ég spyr jafnframt hæstv. viðskrh. hvort uppi séu áform af hennar hálfu eða annarra stjórnvalda til þess að draga úr þessum kostnaði.