Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:54:53 (3595)

2004-01-28 18:54:53# 130. lþ. 52.12 fundur 393. mál: #A kostnaður við að stofna fyrirtæki# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vekur eftirtekt á þeirri staðreynd að kostnaðurinn sem stjórnsýslan tekur á sig við skráningu félaga er að öllum líkindum töluvert lægri en sú upphæð sem stofnendurnir þurfa að greiða.

Ég man ekki betur, þegar við vorum að samþykkja hér lög um aukatekjur ríkissjóðs, en að þá hafi leiðarhnoðað verið að þeir sem greiddu tiltekin gjöld tækju á sig kostnaðinn sem hið opinbera ber af viðkomandi þjónustu. Það er alveg ljóst af því sem hæstv. ráðherra segir að það er ólíklegt að það hafi nákvæmlega verið leiðarljósið varðandi þetta tiltekna mál.

Það er alveg ljóst að það eykur velmegun og bætir samkeppnisstöðu að ryðja burt hindrunum við það að fólk, sérstaklega ungt fólk, eigi kost á því að stofna fyrirtæki. Við sjáum í þeim löndum sem við berum okkur yfirleitt saman við að þar hefur þróunin verið sú á síðustu árum að ríkin hafa lækkað umtalsvert gjöld vegna skráningar nýrra fyrirtækja. Það er ástæðan fyrir því að í mjög mörgum löndum eru þau töluvert lægri. Í því yfirliti sem Verslunarráð Íslands hefur tekið saman er sýnt fram á að Ísland er þriðja hæst af þeim tólf ríkjum sem í því er að finna og maður getur séð þetta á ágætum vef Verslunarráðs Íslands.

Ég fagna því þó að í máli hæstv. ráðherra virtist a.m.k. birtast fyrirheit um að þessi gjöld yrðu ekki hækkuð heldur látin standa í stað og þar með mun raunlækkun þeirra halda áfram. Ég tel hins vegar að það sé mikilvægt til þess að virkja þann þrótt sem birtist m.a. í þeirri könnun sem ég nefndi hér áðan að ryðja burt þessari hindrun.