Neytendastarf

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 19:09:28 (3600)

2004-01-28 19:09:28# 130. lþ. 52.13 fundur 422. mál: #A neytendastarf# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. umræðurnar um þessi brýnu mál. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að sá kostur væri vissulega til skoðunar að kanna hvort stofna ætti sérstakt embætti umboðsmanns neytenda. Það var hið jákvæða við hennar svör en það er augljóst að ástandið hér er í himinhrópandi andstöðu við þá yfirlýsingu hennar að öflugt neytendastarf væri nauðsynlegt og brýnt fyrir samfélagið. Allur samanburður við önnur Norðurlönd, þau lönd sem við hljótum að bera okkur saman við um fyrirkomulag málefna eins og öflugs neytendastarfs, er okkur í óhag. Við erum þar langt á eftir og langur vegur frá því að við getum með nokkrum hætti upplifað þar einhverja samsvörun í fyrirkomulagi þeirra mála.

Það er mjög mikilvægt að gengið verði lengra í því að veita framlög til neytendamála og sérstaklega í að skoða stofnun embættis umboðsmanns neytenda. Ég ætla hér í lokin, með leyfi forseta, að vitna í ályktun frá þingi Neytendasamtakanna í maí 2002 um það mál:

,,Umboðsmaður neytenda hefur einnig það hlutverk að setja almenna viðmiðunarreglu í viðskiptum, auk þess sem hann gegnir hlutverki sáttasemjara í ágreiningsmálum neytenda við hagsmunaaðila. Umboðsmaður getur farið með mál fyrir dómstóla þar sem hann ver hagsmuni neytenda að eigin frumkvæði eða fylgir þeim málum eftir. Umboðsmaður neytenda tryggir þannig að eðlilegar og sanngjarnar leikreglur ríki á markaði og farið sé eftir þeim leikreglum sem í gildi eru.``

Í þessum fáu orðum úr ályktun þings Neytendasamtakanna kemur skýrt og glöggt fram að mikilvægt er að slíku embætti verði fyrir komið hið fyrsta og skora ég á hæstv. viðskrh. að ganga lengra en að kanna þá kosti og lýsa því yfir að sá kostur sé til skoðunar og hefja frekar undirbúning þess máls strax.