Neytendastarf

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 19:11:44 (3601)

2004-01-28 19:11:44# 130. lþ. 52.13 fundur 422. mál: #A neytendastarf# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Við berum okkur oft saman við Norðurlönd og vinnum mikið með öðrum Norðurlöndum. Í mörgum tilfellum erum við með svipað fyrirkomulag í stjórnsýslu okkar en á því eru þó ákveðnar undantekningar. Ég tel ekki að þó að það fyrirkomulag sé á öðrum Norðurlöndum að þar starfi umboðsmaður sé þar með alveg sjálfsagt að við höfum slíkt fyrirkomulag hér á Íslandi. Það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um slíkt en ég hef ekki útilokað neitt til framtíðar.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni þá var það skætingur sem mér fannst ekki eiga rétt á sér. Ég sagði ekkert ljótt um Neytendasamtökin. Ég lagði áherslu á að þau þyrftu að vera öflug, óháð og frjáls og þaðan ætti að heyrast öflug gagnrýnisrödd og þar yrði að vera hlutleysi og þess vegna þyrftu þessi samtök að varast að byggjast upp á þann veg að þau taki að sér sífellt fleiri stjórnsýsluverkefni. Það gerir þau háðari, þ.e. skerðir hlutleysi þeirra gagnvart stjórnvöldum. Það var nú allt og sumt.

Hvað varðar innri málefni Samkeppnisstofnunar og hvernig fjármunum er deilt innan stofnunarinnar á milli deilda þá eru það hlutir sem ég hef ekki afskipti af. Stofnunin starfar að sjálfsögðu sjálfstætt. En ég geri ráð fyrir því að þessi stofnun eins og svo margar aðrar hafi þörf fyrir frekari fjárveitingar af hálfu Alþingis og ætti ekki í miklum erfiðleikum með að koma þeim fjármunum í lóg.