Undanþága frá virðisaukaskatti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 19:17:30 (3603)

2004-01-28 19:17:30# 130. lþ. 52.14 fundur 416. mál: #A undanþága frá virðisaukaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[19:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til hvers konar vöru og þjónustu svo og vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé sérstaklega undanþegin.

Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er sala og útleiga skipa undanþegin skattskyldri veltu. Í framkvæmd hefur ríkisskattstjóri allt frá a.m.k. árinu 1990 túlkað þetta lagaákvæði þannig að það taki jafnframt til aflahlutdeildar sem seld er með skipi eða leigð með skipi. Sú afstaða var m.a. ítrekuð 1998 varðandi svonefnt kvótaþing og hugsanlega virðisaukaskattsskyldu þess. Niðurstaða ríkisskattstjóra í því efni var sú að stofnunin ætti ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem hún veitir.

Rétt er að bæta því við, virðulegi forseti, að lagarök þykja standa til þess að sama gildi um það tilvik þegar aflakvóti er seldur eða leigður sérstaklega, hvort sem það er um lengri eða skemmri tíma. Ljóst er að aflahlutdeild samkvæmt löggjöf um stjórn fiskveiða er í ýmsum tilvikum aðalverðmæti fiskiskips, og skip getur verið nánast verðlaust sem atvinnutæki til fiskveiða þegar það er án veiðiheimilda. Löggjöf um stjórn fiskveiða byggir á því að veiðiheimildir samkvæmt lögunum séu réttindi sem bundin skuli ákveðnu skipi. Þannig er meginregla að aflakvóti fiskiskips fylgir við eigendaskipti þess.

Samkvæmt framansögðu er það því álit fjmrn. og þess sem hér stendur, sem og ríkisskattstjóra, að á grundvelli tilvitnaðs 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt beri ekki að reikna útskatt á sölu eða leigu aflakvóta, hvort sem hann er seldur eða leigður sérstaklega um lengri eða skemmri tíma, eða seldur eða leigður með skipi.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort afkomutengt veiðigjald sem ætlunin er að hefji hér innreið sína frá upphafi næsta fiskveiðiárs hafi hér einhver áhrif hygg ég ekki að svo muni vera, ég held að það sé algjörlega ótengt mál.